Ályktun vegna innheimtu gjalds í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Ferðamálasamtök Íslands lýsa furðu sinni á það hversu stjórnvöld ætla að flækja málin við innheimtu gjalds í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.  Hugmyndin um tvískipt gjald og tvö ráðuneyti er ekki álitleg. Mismunandi skilgreiningar og undaþágur  í frumvarpinu valda ruglingi og auka kostnað t.d. vegna bókhalds og færslugjalda kortafyrirtækja. Gistinóttagjaldið leggst á fyrirtækin sem hafa fullgild rekstrarleyfi en þeir, sem fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda, stunda gistirekstur í leyfisleysi, munu ekki skila því frekar en gistiskýrslum. Það er umhugsunarvert að tjaldbúar eiga ekki að greiða neitt en þeir gista víðast hvar frítt í boði sveitarfélaganna, sem ekki hafa séð sér fært að rukka fyrir greiðann. Þar gildir ekki viðmiðið „þeir greiða sem nota“.
Það er lofsvert að auka framlög til umbóta á ferðamannastöðum og farþegagjaldið er sanngjörn leið, en þess utan mætti skoða fleiri möguleika í samvinnu  við fulltrúa ferðaþjónustunnar.
Ferðamálasamtökin styðja heilshugar áform um Framkvæmdasjóðinn en skora á þingmenn og ráðherra að endurskoða frumvarpið um umhverfisgjaldið og ná sátt við greinina áður en lagt er af stað.

Stjórn Ferðamálasamtaka Íslands