Ávarp umhverfisráðherra á málþinginu Umhverfisvottaðir Vestfirðir

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sat ráðstefnuna frá upphafi til enda og tók virkan þátt í henni.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sat ráðstefnuna frá upphafi til enda og tók virkan þátt í henni.
1 af 3

Ágætu ráðstefnugestir,

Það er mér sérstök ánægja að vera með ykkur hér í dag á hinu forna höfuðbóli – Núpi - mitt í hinni einstæðu náttúru Vestfjarða - umlukin stórbrotnum fjöllum og með útsýni til hafs út á Dýrafjörðinn.

Ég fagna því frumkvæði sem Ferðamálasamtökin hér hafa tekið með því að standa fyrir stefnumótun fyrir vestfirska ferðaþjónustu og þeim vinnuaðferðum sem beitt hefur verið með því að hafa samráð við svo stóran hóp fólks um allan fjórðunginn sem raun ber vitni. Ég tel mjög mikilvægt að hvar sem því verður við komið reynum við að hafa sem flesta með í ráðum þar sem stefna er mótuð og ákvarðanir teknar. Það er eitt af lykilatriðum sjálfbærrar þróunar sem á að vera rauður þráður í öllu starfi að mótun og þróun samfélagsins.

 

Vestfirðingar búa í ægifagurri en viðkvæmri náttúru sem þeir hafa orðið að taka tillit til í aldanna rás. Hér hefur fólk lifað á því sem náttúran gefur, fiski úr sjó, fugli og landbúnaðarafurðum. Því er fólki í þessum landsfjórðungi e.t.v. ljósara en mörgum öðrum að gögn og gæði náttúrunnar eru hin raunverulega undirstaða lífs okkar frá degi til dags.

 

Hin síðari ár hefur ferðaþjónustan orðið æ umsvifameiri hér á Vestfjörðum eins og annars staðar á Íslandi. Stórbrotið landslag, einstök náttúrufegurð, fuglalíf og öræfakyrrð hafa mikið aðdráttarafl bæði fyrir innlenda og erlenda ferðamann. Ferðaþjónustan, eins og flestar aðrar atvinnugreinar sem hér eru stundaðar, byggist því fyrst og fremst á náttúru landsins.

Ykkur hér á Vestfjörðum er ljós sú hætta sem viðkvæmri náttúru getur stafað af vaxandi umferð ferðamanna. Frumkvæði Ferðamálasamtaka Vestfjarða við að safna liði til að standa vörð um þá mikilvægu auðlind sem náttúran er og hefja umræðuna um umhverfisvottun svæðisins alls er því afar mikilvægt.

 

Við sem búum hér á landi erum ekki ein um að hugsa um mikilvægi þess að vernda náttúruna. Fjöldi erlendra ferðamanna sem sækir Ísland heim hefur væntingar um að hér á landi sitji náttúruvernd og umhverfismál í öndvegi. Fólk gerir hreinlega kröfur um að geta valið þjónustu frá fyrirtækjum sem gera vel í umhverfismálum.

 

Við vitum öll að lífsstíll og neyslumynstur okkar sjálfra ráða miklu um stöðu og þróun umhverfismála. Þó athafnir hvers og eins virðist smáar og léttvægar hafa þær afgerandi áhrif á umhverfi okkar bæði nær og fjær. Umhverfisvernd er þannig daglegt viðfangsefni hvers og eins, bæði einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Við getum tekið ákvarðanir um innkaup og neyslu í daglegu lífi okkar sem stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda og draga úr sóun verðmæta. Viðurkenndar umhverfismerkingar og vottanir geta leiðbeint okkur á þessu sviði.

 

Stjórnvöld geta búið svo í haginn að fólk geti valið sjálfbæran lífsstíl í daglegu lífi og að fyrirtæki og stofnanir sjái sér hag í að innleiða umhverfisstjórnun, umhverfismerkingar og stunda vistvæn innkaup. Stefnumótun stjórnvalda frá því í apríl 2009 um vistvæn opinber innkaup ríkisstofnana er mikilvægt skref og fordæmi fyrir samfélagið allt í átt til sjálfbærrar þróunar.

Norræna umhverfismerkið Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Svanurinn byggir á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Markmiðið með Svaninum er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins.

 

Sífellt fleiri fyrirtæki sjá sér nú hag í að fá vottun bæði til að draga úr álagi á umhverfið en líka í því skyni að spara fjármuni í rekstri. Þangað til fyrir tveimur árum höfðu einungis 4 fyrirtæki á Íslandi Svansvottun og hafði verið svo um margra ára skeið. Í formennskuáætlun Íslands í norrænu samstarfi á síðasta ári settum við okkur markmið um að fjölga fyrirtækjum með Svansvottun. Afar góður árangur náðist og er nú svo komið að 7 fyrirtæki hafa hlotið vottun og 12 eru í umsóknarferli. Einnig hefur Svansmerktum vörum í verslunum landsins fjölgað jafnt og þétt.

 

Fyrr í þessum mánuði var Farfuglaheimilunum í Reykjavík veitt Svansmerkið. Strangar kröfur Svansins tryggja að starfsemi farfuglaheimilanna er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa. Ég tel umhverfismerkingar og vottun vera afar jákvæða og skilvirka leið til að stuðla að sjálfbærni hvort sem er í fyrirtækjum að ég tali nú ekki um í heilum landsfjórðungi eins og hér er rætt um.

 

Á umhverfisþingi síðastliðið haust fengum við innsýn inn í það mikla og jákvæða starf sem unnið hefur verið í 5 sveitarfélögum á Snæfellsnesi við að fá vottun frá Green Globe. Það er alveg ljóst að ávinningur af slíkri vottun er margþættur. Um leið og dregið er úr álagi á umhverfið styrkist ímynd svæðisins gagnvart umheiminum og umhverfisvitund allra íbúa á svæðinu styrkist. Slíkt hefur mikil margföldunaráhrif.

 

Vestfirðingar hafa verið fljótir að bregðast við ört vaxandi umsvifum í ferðaþjónustunni. Ég tel til fyrirmyndar hvernig gönguleiðir hafa verið merktar hér um slóðir og göngukort gefin út að ekki sé minnst á frumleika og frjótt ímyndunarafl sem m.a. birtist í því að stofna söfn um skrímsli og galdra auk hefðbundinna safna um menningu og lífshætti fyrr og nú. Það er mikilvægt að fjárfesting í ferðaþjónustu hafi áhuga gestanna í huga og að jafnframt sé borin virðing fyrir náttúru- og menningararfinum.

 

Umhverfisvottun Vestfjarða felur í sér mörg tækifæri ekki bara fyrir þá sem hér búa heldur okkur öll. Mín von og trú er sú að boltinn muni rúlla áfram og fleiri sveitarfélög og svæði muni fylgja fordæmi Snæfellsness og vonandi Vestfjarða í náinni framtíð.

 

Ég vil enn og aftur þakka fyrir boðið á þessa ráðstefnu. Ég er þess fullviss að fjöllin og hin einstæða náttúra hér munu gefa okkur nýjar hugmyndir og innblástur sem varða leiðina að sjálfbæru Íslandi.