Borea Adventures býður til opnunarhófs

Fyrirtækið Borea Adventures opnar á sunnudaginn næstkomandi 16. maí kl. 16:00 skrifstofu og vinnuaðstöðu sína í Hæstakaupstaðarhúsinu í Aðalstræti á Ísafirði. Hlutverk hússins verður fyrst og fremst að hýsa búnað fyrirtækisins, starfsfólk og vera aðsetur gesta sem eru að koma í spennandi ferðir um Vestfirði undir vörumerkinu North Explorers. North Explorers er hluti af Borea Adventures sem hefur síðan 2006 staðið fyrir ævintýraferðum á seglskútu um Vestfirði, austur Grænland og Jan Mayen við góðan orðstír. North Explorers mun sjá um allar dagsferðirnar og lengri kajakferðir sem boðið verður upp á í fyrsta skipti í sumar. Við trúum að besti ferðamátinn sé að ferðast ,,hljóðlega" þ.e. notast sem minnst við vélknúinn ökutæki. Því leggjum við mesta áherslu á gönguferðir, fjallgöngur og kajakferðir af ýmsum erfiðleikum. Í nánustu framtíð verður bætt við fleiri ferðum af ýmsu tagi. Þrír starfsmenn munu sinna þessum ferðum í sumar og erum við bjartsýnir á að vertíðin verði góð.

Eins og áður segir verður húsið opnað kl 16:00 en kl. 20:00 verður sýnd stórskemmtileg kajakmynd sem heitir "Paddle to Seattle" um ferðalag félaganna Josh Thomas og J. J. Kelley er þeir réru á heimasmíðuðum kajökum 1300 mílur frá Alaska til Seattle. Myndin hefur hlotið fjölmörg verðlaun en svo skemmtilega vill til til að þeir verða staddir á Ísafirði þessa helgi og munu vonandi kynna myndina áður en sýning hefst.

Allir velkomnir
www.boreaadventures.com