Ferðamálaþing Ferðamálastofu og Iðnaðarráðuneytisins

Iðnaðarráðherra í ræðustól. Mynd: Ferðamálastofa
Iðnaðarráðherra í ræðustól. Mynd: Ferðamálastofa

Fimmtudaginn 20.nóv sl. var Ferðamálaþing Ferðamálastofu og Iðnaðarráðuneytisins haldið á Grand Hótel Reykjavík.

 

Þingið heppnaðist ákaflega vel og troðfylltu ferðaþjónustuaðilar 400 manna fundarsal. Össur Skarphéðinsson, Iðnaðarráðherra, setti þingið með kraftmikilli ræðu og var ekki að heyra annað á máli hans að ráðherra stæði þétt á bak við ferðaþjónustuna og talaði hann m.a. fyrir aukinni aðstoð við ýmis hagsmunamál greinarinnar.

 

Sérstaka athygli vakti málflutningur ráðherra um aukna áherslu á rannsóknir í ferðaþjónustu, en auknar rannsóknir eru greininni afar mikilvægur og ánægjuefni að ráðherra sýni því slíkan áhuga. Jafnframt gerði ráðherra grein fyrir hugmyndum um fjárframlög til markaðssetningar á landsbyggðinni og að markaðsstofurnar á landsbyggðinni mundu fá hluta þess fjármagns.

 

Fjöldi frambærilegra erinda var fluttur á þinginu, en að öðrum ólöstuðum þótti erindi Vestfirðingsins Páls Ásgeirs Ásgeirssonar, blaðamanns afar skemmtilegt. En hann fjallaði á lifandi og afar áhugaverðan hátt um náttúru Íslands og möguleika á ferðaþjónustu. M.a. tók hann sérstaklega fyrir Lónafjörð í Jökulfjörðum, sem hann taldi vera "paradís á jörð".