Frá afmælisráðstefnu SAF -Markaðssetning á Bandaríkjamarkaði

Ráðstefna SAF var haldin þ. 6. nóvember sl. í tilefni af 10 ára afmæli SAF og sóttu um 130 manns hana. Góður rómur var gerður að erindum ráðstefnunnar en Dr. Auliana Poon, framkvæmdastóri Tourism Intelligence International, var með fyrsta erindi ráðstefnunnar. Hún talaði um ferðahegðun Bandaríkjamanna og hvernig  breytingar hafa orðið þar á í tímanna rás frá því að vera magnbundin í það að hver og einn sníður sína ferð að eigin þörfum.  Einnig talaði hún um að bandarískir ferðamenn sæktu nú á tímum  í stuttar en innihaldsríkar ferðir sem tengjast meira náttúru og menningu. Dr. Auliana talaði um að árið 2007 hefðu Bandaríkjamenn farið í  64 milljónir ferða  erlendis en að aðeins lítil prósenta Bandaríkjamanna ferðist að jafnaði erlendis þar sem tími ferðalaga er oft mjög langur. Hún talaði einnig um að bókanir færu fyrst og fremst í gegnum internet en síminn væri einnig mikið notaður.  Þá fjallaði Dr. Auliana um þann hóp fólks sem tekið hefur við af "hippum" og "uppum" sjöunda og áttunda áratugarins sem nefnist "bobos" en í þeim hópi er vel efnað fólk sem lætur sér annt um náttúruauðæfi jarðarinnar, vill borða mat sem er beint frá bónda og vill eiga félagsleg samskipti við fólk af sama toga. Að lokum gaf Dr. Auliana Íslendingum þau ráð að mikilvægt væri að bjóða "ekta vöru"  og kynna hana á þeim mörkuðum sem sótt er á.


Næst flutti Helgi Már Björgvinsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair erindi um Bandaríkjamarkað. Í máli Helga kom fram að Icelandair hefur sett meginþorra auglýsingafjármagns síns á erlendan markað og að Ísland væri svokallaður syllu markaður Icelandair í Bandaríkjunum. Helgi var sammála Dr. Poon um að ferðahegðun Bandaríkjamanna sé að breytast og að ferðir séu meira sniðnar að eigin högum en engu að síður væri alltaf ákveðinn hópur sem velur tilbúnar pakkaferðir. Í máli Helga koma fram að mikil tækifæri geta myndast við aðstæður eins og nú eru á markaði og hægt sé að fjölga ferðamönnum frá Bandaríkjunum talsvert þar sem þeir eru í dag aðeins um 11% heildarfjölda erlendra ferðamanna sem sækja Ísland heim. Einnig sagði Helgi að bókanir með Icelandair frá Bandaríkjunum hefðu tvöfaldast á milli ára það sem af er nóvember og þakkaði hann það auknu markaðsstarfi.  Að lokum sagði Helgi að þrátt fyrir þá lægð sem íslenska krónan væri í mætti ekki markaðsetja landið sem ódýrt heldur frekar koma auga á þau tækifæri sem felast í þessari tímabundnu sveiflu.   Sjá erindi Helga Más hér.