Fræðslufundur um markaðssetningu á netinu


Vaxtarsamningur Vestfjarða stendur fyrir fræðslufundi með Ariel Hyatt í Bryggjusalnum í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á morgun fimmtudaginn 9.april frá kl. 15-17, en hún sérhæfir sig alfarið í almannatengslum og markaðssetningu á veraldarvefnum. Með alla þræði í hendi er yfirskrift fundarins en þar verður farið yfir helstu tæki og tól sem finnast á vefnum og hvernig megi tengja þræði þess í markaðssetningu. Leitast verður við að gefa fulla yfirsýn yfir hvernig fyrirtæki og einstaklingar geta nýtt sér vefinn til að koma vöru og þjónustu sinni á framfæri og svara spurningum á borð við: Hvað eru samfélagsvefir og Vefurinn 2.0? Hvernig er best að nota fyrirbærið til að koma vörum og þjónustu á framfæri? Hvernig nýtast almannatengsl best og hvernig eykur þú veltu og hagnað af netkynningu?


Ariel Hyatt þykir einn fremsti almannatengslafulltrúi Bandaríkjanna og sérhæfir sig alfarið í markaðssetningu á netinu. Fræðslufundurinn er skipulagður í samvinnu við Önnu Hildi Hildibrandsdóttir hjá Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar en hún hefur nýtt sér alla þá kosti sem netið býður upp á í kynningarvinnu og markaðssetningu á íslenskri tónlist.
Ókeypis er á fundinn og er hann öllum opinn.