Heilsugæslan á leiksvið


Íslendingar hafa löngum státað af besta heilbrigðiskerfi í heimi. Við hrósum okkur yfir háum meðalaldri, þjónustu í hæsta gæðaflokki og frábærum læknum. En er kerfið eins gott og af er látið? Er það hugsanlega farið að vinna gegn tilgangi sínum? Er aukinni eftirspurn sjúkdóma svarað með meira framboði? Hvaða tilgangi þjónar góð heilsa? Metum við líf í magni eða gæðum? Leikritið, Heilsugæslan, er samið af lækni, Lýð Árnasyni, og gefur áhorfandanum sýn inn í þetta völundarhús og það sem býr að tjaldabaki. Heilsugæslan er gamanleikur og öll hlutverk í höndum tveggja leikara, þeirra Elfars Loga Hannessonar og Margrétar Sverrisdóttur. Heilsugæslan er hápólitískt leikrit og umfjöllunarefnið brennandi á íslenzku þjóðfélagi, ekki sízt núna, í skugga niðurskurðar. Heilsugæslan fyrir alla!

Heilsugæslan verður frumsýnd í Arnardal föstudaginn 2. október kl.19.30. Heilsugæslan verður einnig sýnd á Kaffi Riis á Hólmavík, í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði og í Félagsheimilinu á Þingeyri. Seinna í vetur verður leikurinn sýndur á Akureyri og í Reykjavík. Það er Kómedíuleikhúsið sem setur Heilsugæsluna á svið en leikhúsið er atvinnuleikhús Vestfjarða. Kómedíuleikhúsið hefur sett á svið fjölmörg leikverk af þeim er einleikurinn Gísli Súrsson þekktastur en hann hefur verið sýndur yfir 200 sinum bæði hér heima og erlendis en er nú kominn í súr, í bili að minnsta kosti. Kómedíuleikhúsið stendur einnig að Act alone leiklistarhátíðinni sem er haldin árlega á Ísafirði en hátíðin er helguð einleikjum og er eina sinnar tegundar hér á landi.