Ísland - Allt árið - og líka á Vestfjörðum

Ferðamálasamtök Vestfjarða og Vesturferðir hafa ákveðið að leggja sameiginlega 500 þús. kr. til verkefnisins Ísland – Allt árið sem kynnt hefur verið undanfarið allt í kringum landið. Samstarfsaðilar að verkefninu eru Iðnaðarráðuneytið, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Icelandair, Iceland Express, Reykjavíkurborg og Íslandsstofa.

Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins „Ísland – Allt árið“. Verkefnið er til þriggja ára og er þegar hafinn undirbúningur vetrarátaks sem hefst á haustmánuðum. Vestfirsk vetrarferðamennska mun njóta góðs af þessu verkefni og verða sérstaklega kynnt í gegnum heimasíðu www.inspiredbyiceland sem hlaut nýverið alþjóðlega viðurkenningu fyrir einstaklega vel heppnað markaðsátak. Í gegnum þá vefsíðu verður tengill inn á vefsíðu Markaðsstofu Vestfjarða westfjords.is/wintertours þar sem fjallað verður sérstaklega um hvað er í boði yfir veturinn á Vestfjarðakjálkanum öllum.

Samhliða er unnið innan verkefnisinsað langtíma verk- og markaðsáætlun fyrir ferðaþjónustuna.
Verkefnið hefur þann tilgang að jafna árstíðarsveiflu í komu ferðamanna og skapa þannig ný störf og auka arðsemi af greininni. Verkefnið mun byggja á þeirri fjárfestingu sem lögð hefur verið í markaðsátakið Inspired by Iceland og vinna áfram með það vörumerki. Það beinist fyrst og fremst að því að auglýsa og kynna Ísland sem áfangastað allt árið, en um leið verður leitast við að virkja almenning á Íslandi til þátttöku í verkefninu.
Einnig verður horft til úrvinnslu og niðurstaðna úr verkefninu „Vetrarferðaþjónusta“ sem verið er að vinna úr eftir sumarið 2011, af hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu auk ráðuneytis ferðamála.

Markmið verkefnisins er:
„Að styrkja ímynd Íslands sem áfangastað ferðamanna allt árið um kring“.
„Að fjölga ferðamönnum utan háannar um 100.000 frá september 2011 – september 2014 eða um 12% á ári“
„Að auka verslun erlendra ferðamanna þannig að endurgreiðsla af VSK til ferðamanna utan háannar aukist úr 560 milljónum í 800 milljónir á tímabilinu“

Með 500.000 þúsund króna framlaginu fá aðilar tengil inn á vef verkefnisins www.inspiredbyiceland.com, aðgang að árlegum fundi þátttakenda og þar með kost á að hafa áhrif á áherslur í markaðsmálum. Lógó aðilans ásamt kynningartexta sem nemur 2 línum kemst inn á vef verkefnisins og hlekk á vefsíðu í snjallsíma og spjaldtölvulausnum Inspired by Iceland auk þess sem leyfi fæst til að nota vörumerkið „Inspired by Iceland“ á öllu kynningarefni.

Þetta er þriggja ára verkefni og á næsta ári mun verða leitað eftir nánara samstarfi við öll fyrirtæki í ferðaþjónustu á Vestfjörðum við að kosta framlagið.