Melrakkasetur hefur verið opið í einn mánuð

Nú hefur Melrakkasetrið verið opið í mánuð og hefur sá mánuður aldeilis verið viðburðarríkari en við höfðum gert ráð fyrir.

Yfir fimm hundruð manns hafa heimsótt sýninguna okkar, fyrir utan hátt í þrjúhundruð manns sem komu á opnunarhelginni, og höfum við fengið lof og prís fyrir hversu vel hefur tekist til. Það er þó gaman að geta sagt frá því að enn er eftir að bæta talsvert miklu við sýninguna því mikið viðbótarefni er í vinnslu, til dæmis barnaleiðsögn. Við höfum fengið í heimsókn eldriborgarahópa af Austurlandi og Ausfjörðum, leikskólabörn frá Ísafirði og Súðavík, hjóla- og göngugarpa ásamt sumarbúum og mörgum fleirum.

Svo eru okkur að berast munir að gjöf og láni frá refaveiðimönnum og öðrum áhugasömum, til dæmis bækur frá Þórði ljósmyndara. Guðmunda Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar Einarssonar (Nú brosir nóttin) færði okkur yrðlingaboga sem eiginmaður hennar, Jón „rebbi" Oddsson átti og notaði. Guðmundur Guðmundsson, sonur Guðmundar Stefáns Guðmundssonar refaskyttu, tvíburabróður Þorláks Guðmundssonar (Hrefnu Láka), kom með mynd og frásagnir af föður sínum sem fæddist hér í Eyrardal. Guðmundur þessi var refaskytta á stóru svæði hér á norðanverðum Vestfjörðum og hélt yrðlinga í girðingu í Hnífsdal. Sagt er frá svaðilförum þeirra bræðra í bókinni „Vaskir menn". 


Guðmundur Jakobsson frá Reykjafirði fláði og spýtti sex melrakkabelgi á gömlum þurrkgrindum frá Reykjafirði annars vegar og Litlabæ (Finnbogi Pétursson) hinsvegar. Guðmundur gaf síðan Melrakkasetrinu skinnin og erum við afar þakklát honum fyrir enda mikið og vel unnið verk og falleg skinn.


Einnig ber að nefna einstakt frímerkjasafn Helga Gunnarssonar rannsóknarlögreglumanns frá Hafnarfirði en hann hefur safnað frímerkjum, póstkortum og fleiru, með merkjum og myndum af melrökkum, frá ýmsum heimshornum. Það er fengur fyrir okkur að fá að sýna þetta merka safn sem Helgi hefur sett saman á skemmtilegan hátt í máli og myndum. Hafa komið hingað lögreglumenn í fullum skrúða til þess eins að berja þetta merka safn hans augum.

Okkur barst á dögunum myndarlegur fjárstyrkur frá Kristjönu Samúelsdóttur og var hann notaður sem stofnfé í sérstakan styrktarsjóð sem við köllum „Jönusjóð" og þangað munum við leggja inn fjárhæðir sem berast Melrakkasetrinu. Það fyrsta sem okkur langar að safna fyrir er svokölluð vefmyndavél en þá getum við fylgst með dýrunum úti í náttúrunni af skjá hér á setrinu eða í tölvunni í gegnum internetið. Bandarísk fjölskylda sem fór með okkur í ævintýraferð á refaslóðir færði okkur einnig fjárrstyrk í Jönusjóðinn.

Kaffihúsið „Rebbakaffi" þykir hið allra notalegasta og eru gestir duglegir að setjast niður úti á palli eða inni í stásstofunni og hefur rebbakakan og vafflan með rebbabarasultunni aldeilis slegið í gegn - svo ekki sé talað um hvað fólki þykir gott að fá sér einn kaldan eftir gönguferð í góða veðrinu.

Leikhúsloftið okkar, þar sem veiðimaðurinn hefur „gaggað í grjótinu" á fimmtudagskvöldum, hefur einnig vakið mikla lukku og eru nú tvær sýningar eftir af einleiknum - nokkur sæti eru laus í kvöld kl. 20 en svo er síðasta sýningin eftir viku, fimmtudaginn 22. júlí.

Frosti litli hefur komið í heimsókn af og til en nú erum við að leggja lokahönd á gerði handa honum þar sem ætti að fara vel um hann þegar hann kíkir við í sumar. Hann er um 7 vikna og af hvíta litarafbrigðinu. Þegar hann hefur stækkað og orðið meira sjálfbjarga mun hann fá frelsið undir eftirliti þeirra í Heydal í Mjóafirði. Það verður gaman að hitta hann þar í vetur og við ætlum að fylgjast með honum vaxa og verða að fullorðnum ref.

Við fengum Mörthu Ernstdóttur í heimsókn en hún er m.a. jógakennari og var farið í jóga hér á pallinum í morgunsólinni. Má segja að hér hafi einhver dásemdar heilun legið yfir mannskapnum og var himnasælusvipur á andlitunum þegar æfingunni lauk. Við erum afar þakklát Mörthu fyrir þessa yndislegu stund en hún þvertók fyrir að þiggja laun fyrir og er þetta hennar framlag til setursins.

Stærsti viðburðurinn í Eyrardalnum það sem af er júlímánuði er þó tvímælalaust brúðkaup Steina og Rósu þann 11. júlí. Athöfnin fór fram uppi á lofti Melrakkasetursins og var útbúið altari við skorsteininn þar sem Sr. Valdimar sóknarprestur gaf brúðhjónin saman. Gestirnir voru um 40, systkini og afkomendur brúðhjónanna en Steini og systkini hans níu eru fædd og uppalin hér í Eyrardal. Það var falleg stund og gaman að sjá hvað fólkið sem þekkti húsið í gamla daga var ánægt með hversu vel hefur t! ekist til með uppbygginguna. Fyrir okkur var einnig gott að vita að hér er auðveldlega hægt að halda veislur af þessari stærðargráðu og bjóðum gjarnan upp á slíkt í framtíðinni.

Framundan er nóg af verkefnum: næstsíðasta leiksýningin, Gaggað í grjótinu er í kvöld kl. 20 og á morgun ætla konurnar að hittast á læðukvöldi og skemmta sér saman á Melrakkasetrinu.

Það er spennandi að sjá hvað næsti mánuður ber í skauti sér en bjóðum alla velkomna í sæluna í Eyrardal .

 

www.melrakkasetur.is