Nordic Tourism - ráðstefna á Ísafirði 28.apríl

Nánari kynning á ráðstefnunni
Nánari kynning á ráðstefnunni

Nordic Tourism

Inspiration - Innovation - Destination
Edinborgarhúsið á Ísafirði
28. apríl 2009


Iðnaðarráðuneytið, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Norræna Nýsköpunarmiðstöðin - NICe í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina efna á vordögum til norræns málþings á Ísafirði sem fengið hefur heitið Nordic Tourism.
Á málþinginu verður áhersla lögð á nýsköpun í ferðaþjónustu, uppbyggingu áfangastaða og viðbrögð ferðaþjónustunnar við efnahagserfiðleikum.

Fjölmargir fyrirlesarar munu koma og miðla af reynslu sinni. Aðalfyrirlesari er Jill Hellman - Chief Innovator for Thayer Lodging Group og mun hún fjalla um nýsköpun á tímum efnahagskreppu. Aðkoma ríkis og sveitarfélaga að þróun áfangastaða og uppbyggingu í ferðaþjónustu mun verða til umræðu í fyrirlestrum Sigrúnar Jakobsdóttur, bæjarstjóra á Akureyri og Claus Rex Christensen frá VisitDenmark.

Fjallað verður um menntun og yfirfærslu þekkingar milli svæða á Norðurlöndum og hvað Norðurlöndin hafa lært af fyrri efnahagskreppum og að lokum koma fulltrúar frá Voss í Noregi og lýsa uppbyggingu svæðisins sem áfangastaðar í ferðaþjónustu.


Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands mun síðan leiða þátttakendur í upphafi hópastarfs með sýn á nýsköpun og uppbyggingu áfangastaða til framtíðar.

Í lok dags verða gestir beðnir að vinna saman tillögur að leiðum til uppbyggingar svæða eins og til dæmis Ísafjarðar sem er staðsetning málþingsins. Hópar kynna tillögur sínar og ráðstefnustjóri Ólöf Ýrr Atladóttir tekur saman niðurstöður dagsins.

Eftir að málþingi lýkur verður gestum boðið í skoðunarferð um Ísafjörð og nágrenni og að henni lokinni í sameiginlegan kvöldverð. Verði á öllum þáttum málþingsins flugi og veitingum er mjög stillt í hóf í pökkum sem í boði eru til 15. apríl.

Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á vef Nýsköpunarmiðstöðvar, www.nmi.is og hjá Sigríði Ó. Kristjánsdóttur verkefnisstjóra hjá Impru á Nýsköpunarmiðstöð í síma 450-4052.

Skráningar á ráðstefnuna og bókanir á flugi og gistingu annast ferðaskrifstofan Vesturferðir á Ísafirði. Á vefnum www.vesturferdir.is er hægt að finna dagskrá málþingsins, skrá sig og bóka flug og gistingu.