Nýtt námskeið á vegum Impru Nýsköpunarmiðstöð

Boðið verður upp á námskeiðið Sóknarbraut á Ísafirði á vegum Impru á Nýsköpunarmiðstöð og hefst það 1. september næstkomandi.

 Sóknarbraut er hagnýtt námskeið um rekstur fyrirtækja með áherslu á þróun hugmynda, markaðssetningu, stjórnun og fjármál. Sóknarbraut hentar sérstaklega vel einstaklingum sem starfa sem stjórnendur í minni fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa hug á að hrinda í framkvæmd viðskiptahugmynd eða stofna eigið fyrirtæki.  Sóknarfæri er opið jafnt körlum sem konum og ekki er gerð krafa um sérstaka undirbúningsmenntun. Hver þátttakandi vinnur að ákveðinni viðskiptahugmynd undir handleiðslu verkefnisstjóra og kennara meðan á námskeiðinu stendur.  Markmiðið er að veita þátttakendum hagnýta menntun og stuðning sem hvetur þá til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og nýta þau tækifæri sem eru til staðar.  Menntunin fer fram á fræðilegum og faglegum grunni og á námstímanum vinna þátttakendur að ákveðnu verkefni sem byggir á þeirra eigin viðskiptahugmynd.  

Námskeiðið byggir á fyrirlestrum, þjálfun, viðtölum og verkefnum sem tengjast þeirri hugmynd sem hver einstaklingur vinnur að hverju sinni.  Námskeiðið er 36 kennslustundir og skiptist í 9 hluta.  Kennt verður í fjóra tíma í senn, aðra hverja viku.

Kennari er Ágúst Pétursson, ráðgjafi.

 Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Impru, www.impra.is en þar er einnig hægt að nálgast umsóknareyðublöð.