Skýrsla formanns á aðalfundi 2010

Frá aðalfundi.
Frá aðalfundi.
1 af 3
Frá síðasta aðalfundi Ferðamálasamtaka Vestfjarða sem haldinn var á Drangsnesi fyrir réttu ári síðan þann 18. apríl 2009, hafa verið haldnir sjö stjórnarfundir. Þrisvar sinnum hefur stjórnin náð að hittast augliti til auglitis og fjórum sinnum hafa fundir verið haldnir í gegnum síma. Stjórnin öll hefur verið starfsöm og tekið virkan þátt í þeim málefnum sem rædd hafa verið á fundunum. Ég vil þakka þeim öllum kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári og hlakka til að takast á við frekari verkefni í framtíðinni, með þeim stjórnarmönnum sem halda áfram og þeim sem koma nýjir inn. Ég vil færa sérstakar þakkir til Áslaugar Alfreðsdóttur sem hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram til endurkjörs að þessu sinni. Áslaug hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu ferðaþjónustu á Vestfjörðum innan Ferðamálasamtaka Vestfjarða frá árinu 1988.

Á liðnu starfsári var vinna við stefnumótun ferðaþjónustunnar áberandi sem var eitt þeirra helstu markmiða liðins starfsárs. Ferðamálasamtökin fengu í lið með sér Ásgerði Þorleifsdóttur frá AtVest, Jón Pál Hreinsson frá Markaðsstofu Vestfjarða og Jón Jónsson frá Menningarráði Vestfjarða til að hjálpa til við að stýra vinnunni undir forystu Ásgerðar, en óhætt er að segja að meginvinna verkefnisins hafði verið á hennar herðum. Haldnir voru fjölmennir fundir á haustdögum um allan fjórðunginn þar sem rædd voru málefni ferðaþjónustunnar út frá öllum hliðum og sóttar upplýsingar til þeirra sem sóttu fundina um hvaða verkefni þyrfti að vinna að á næstu árum. Stefnumótunarskýrslan var kynnt á fundi í gærkvöldi hér í þessum sal á Hótel Núpi í Dýrafirði og verður gefin út von bráðar.

Það koma skýrt fram meðal ferðaþjónustunnar á stefnumótunarfundunum að stefnt skuli að því að Vestfirðir verði leiðandi svæði í umhverfismálum og sjálfbærri ferðaþjónustu og skapi sér ímynd og sérstöðu á því sviði. Ferðaþjónustan á Vestfjörðum skuli einkennast af gæðum, trausti og gestrisni heimamanna og á að styðja undir sérstöðu svæðisins sem byggi á ósnortinni náttúru, friðsæld og öðruvísi upplifun á umhverfi og menningu svæðisins.

Eftir þessa fjölmennu fundi þar sem nokkuð á annað hundrað manns víðsvegar á Vestfjarðakjálkanum lögðu fram hugmyndir og umræðu til stefnumótunarinnar kom það berlega í ljós að Vestfirðingar eru tilbúnir til að hefja umræðu af fullri alvöru um alla þætti umhverfismála. Raunar kom fram skýr krafa um það á fundunum að sá málaflokkur yrði tekinn sérstaklega fyrir við allt skipulag ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða sá að ekki væri eftir neinu að bíða að koma umræðunni af stað og ákvað þegar í stað að stefna að metnaðarfullri ráðstefnu, Umhverfisvottaðir Vestfirðir, í tengslum við næsta aðalfund samtakanna. Sú ráðstefna mun hefjast eftir þennan aðalfund okkar þar sem fram fjöldi fræðimanna og sérfræðinga sem hafa látið umhverfismál til sín taka og munu miðla ráðstefnugestum af mikilli reynslu sinni á því sviði.
Ferðamálasamtök Vestfjarða stefna að því að fylgja ráðstefnunni eftir í samvinnu við Fjórðungssamband Vestfirðinga. Markmiðið er að umhverfisvottun Vestfjarða komist á dagskrá Fjórðungssambandsins og að vestfirsk sveitarfélög sameinist um að stefna að slíkri vottun, í það minnsta taki upp þá umræðu á meðal íbúanna.

Ferðamálasamtökin hafa haft hlutdeild að Markaðsstofunni ásamt Fjórðungssambandi Vestirðinga og Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða frá stofnun hennar árið 2006. Megnið af þeim tíma eða frá því um mitt ár 2006 hefur Jón Páll Hreinsson verið forstöðumaður hennar og unnið vasklega að markaðsverkefnum innan hennar og verið sérlega duglegur að setja sig inn í málefni ferðaþjónustunnar og vinna greininni framgang. Hann sagði nýlega upp störfum og stefnir að því að snúa sér að öðrum verkefnum í framtíðinni. Núna á vordögum mun stjórn Markaðsstofunnar auglýsa eftir nýjum forstöðumanni og stefnir að því að ráða til starfa nýjan forstöðumann í byrjun ágúst n.k.. Það bíður stjórnar Markaðsstofunnar krefjandi verkefni að ráða í þetta mikilvæga starf í stoðkerfi greinarinnar og það verður vandaverk að fylla starf Jóns Páls. Ég vil fyrir hönd Ferðamálasamtaka Vestfjarða senda Jóni Páli kærar þakkir fyrir ánægjulegt og farsælt samstarf undanfarin ár og óska honum alls hins besta í framtíðinni við ný verkefni.

Göngukortin sjö sem samtökin hafa unnið að útgáfu á undanfarin ár voru öll komin í sölu á síðasta ári. Salan á þeim gekk vel og söluveltan á þeim var vel aðra milljón króna. Stjórnin tók umræðu í vetur um framhald á útgáfu kortanna þar sem farið vary fir lagerstöðu og skoðað hvenær þörf væri á nýrri prentun á einstökum kortum. Miðað við lagerstöðu þykir ekki ástæða til að ráðast í prentun fyrir sumarvertíðina í ár heldur að taka ákvörðun um það fyrir næsta ár. Hliðarverkefni tengd göngukortunum komu líka til umræðu innan stjórnarinnar s.s. gönguleiðamerkingar í tengslum við merktar leiðar á kortunum. Göngukortin þurfa að vera sjálfbær, það er, að sala þeirra standi undir endurútgáfu þeirra þegar á þarf að halda og gerð merkinga. Í því ljósi ákvað stjórnin á fundi þann 16. janúar að útsöluverð kortanna frá Ferðamálasamtökunum yrði kr. 600.

Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem hefur mikil og jákvæð áhrif inn í samfélagið en það eru oft óljós mörk á því hvar landamæri hennar liggja. Ef ekki væri fyrir öfluga ferðaþjónustu þá byggju íbúarnir ekki endilega við sömu lífskjör og annars væri. Rekstur sundlauga, matvöruverslana, veitingastaða og hverskyns afþreyingar auk margvíslegrar annarrar þjónustu, sem þykir sjálfsögð í öllum byggðum, væri vart svipur hjá sjón ef ekki hefði verið unnið markvisst við uppbyggingu ferðaþjónustu mörg undanfarin ár. Þegar upp er staðið þá starfa fleiri að einhverju leyti við ferðaþjónustu en fólk gerir sér kannski almennt grein fyrir.
 
Það er ekki síst þess vegna sem ferðaþjónustan, sem er mikilvæg atvinnugrein, þarf að vera óhrædd við að líta í eigin barm og íhuga hvað betur megi gera. Sjálfsgagnrýni er okkur öllum hollt og við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því að við berum mikla ábyrgð gagnvart þeim samfélögum sem við búum í. Jafnt vegna þess sem ég nefndi hér á undan og ekki síður vegna þeirrar ímyndar sem greinin hefur út á við. Við sjálf þurfum stöðugt að reyna að gera betur og stefna í sameiningu að því að ferðaþjónustan eflist og glæðist. Jafn vetur, vor, sumar og haust. Það er að öllu leyti undir okkur sjálfum komið.
 
Ég vil þakka fyrir margar góðar samverustundir með ferðaþjónustuaðilum á Vestfjörðum frá því ég tók við formennsku Ferðamálasamtakanna á síðasta ári og hlakka til að taka þátt í mörgum spennandi verkefnum sem framundan er. Að vinna að gæðaboðorðum Ferðamálasamtakanna, stuðla að lengri opnunartíma fyrirtækja með einhverjum ráðum, fræðslumálum, koma á samvinnu ólíkra aðila, efla ferðaþjónustuna almennt og vinna að öllum þeim þjóðþrifaverkefnum sem þið lögðuð til í stefnumótunarvinnunni á síðasta starfsári.
 
Hótel Núpi í Dýrafirði þann 17. apríl 2010
Sigurður Atlason
formaður FMSV