Skýrsla formanns á aðalfundi FMSV á Hótel Bjarkarlundi 14. apríl 2012

Sigurður Atlason, formaður FMSV
Sigurður Atlason, formaður FMSV

Fundarstjóri, kæru vinir og félagar

Ég vil bjóða ykkur velkomin á enn einn aðalfund Ferðamálasamtaka Vestfjarða, sem munu eftir þennan fund hefja sitt 28. starfsár. Það hefur margt vatn runnið til sjávar á þeim tíma og umhverfi ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum tekið miklum stakkaskiptum.

Ég man sjálfur svo vel eftir því sumarið 1984 hvað manni þótti spennandi að sjá útlendinga með bakpoka ganga um stræti Hólmavíkur. Það var oftast um að ræða puttalinga og svo birtist einn og einn bílaleigubíll, forverar Yaris fólksins svokallað sem við þekkjum svo vel í dag. Þjónusta fyrir ferðamenn var ekki mikil, þó gekk rúta þangað á Strandir tvisvar eða þrisvar í viku og gott ef ekki alla leið norður í Árneshrepp í einni ferðinni, en það er nú aflagt þrátt fyrir stóraukinn ferðamannastraum og er nú önnur saga sem ég kann ekki skil á.

Frú Vigdís Finnbogadóttir var forseti lýðveldisins og hvatti landsmenn óspart til að planta trjám. Það urðu margir til að hlýða á hana og hófu trjárækt í görðum sínum sem síðan hafa vaxið og dafnað frá því að vera litlar viðkvæmar plöntur upp í stærri og myndarleg  tré með gilda stofna hjá þeim sem höfðu eljuna og þolinmæðina til að bera. Það gat verið basl hjá mörgum garðræktandanum að koma trjánum sínum til en hjá öðrum gekk það betur. Það er nefnilega allt spurning um elju hvers og eins, þolinmæði og ekki síður hvort umhverfi gróðursins sé honum hagstæður. Þeir hafa oftar náð bestum árangri sem hafa farið nokkuð skipulega að trjáræktinni, haft þolinmæði til að bera og velt fyrir sér árstíðum og fleiri þáttum, eða leitað sér upplýsinga um hvernig best sé að haga sér í ræktinni.

Sama á við um ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Hún er orðin mikilsverð atvinnugrein sem hefur vaxið úr því að vera viðkvæmur sproti upp í það að skapa skjól fyrir fjölda fólks, og sáð í leiðinni áburði í samfélögin sem hún starfar í.

Við eigum því fólki sem stóð fyrir því að mynda þetta samstarfsumhverfi sem Ferðamálasamtökin standa fyrir fyrir 28 árum nokkuð að þakka. Það er svo mikilvægt fyrir okkur sem störfum í greininni að hafa vettvang til að koma saman, kynnast hvort öðru, læra af hvort öðru og skiptast á skoðunum. Þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við öll á leið að sama marki og það er þægilegra fyrir okkur að arka þangað saman í hóp og í góðu skjóli frekar en ein á berangri.

Þau verkefni sem Ferðamálasamtökin hafa staðið fyrir í gegnum tíðina hafa undantekningalaust miðast að því að vinna að sameiginlegum hagsmunum þeirra sem starfa í greininni allt í kringum kjálkann. Það hafa margar misjafnar leiðir verið farnar, enda margar leiðir til Parísar eins og einn góður vinur minn tönglast gjarnan á. Leiðin er þó heldur greinilegri og þar með líklega fljótlegri ef hún hefur verið kortlögð, sem er einmitt það sem samtökin unnu svo vel að, fyrir tveimur árum með stefnumótun vestfirskrar ferðaþjónustu 2010 – 2015. Í henni koma fram leiðir sem hægt er að feta sig áfram til að vinna að framgangi greinarinnar á næstu árum. Sumt er einfalt að gera og annað tekur heldur meiri tíma og þolinmæði.

Á síðasta ári var mest vinna lögð í samstarfi ferðaþjónustunnar í markaðssetningu og vöruþróun með því að hvetja til kaupa í ferðaskrifstofunni Vesturferðir og freista þess að búa til grundvöll fyrir alla ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum að koma vöru sinni og þjónustu á framfæri. Yfir 50 aðilar ákváðu að taka þátt í verkefninu og það verður spennandi að sjá hvaða ávöxt það samstarf muni bera á næstu árum. Ég er sannfærður um það að með góðri samvinnu og vilja til að vinna saman þá verði hægt auka mjög vöxt greinarinnar á komandi misserum. Með því að hlúa sameiginlega að hvort öðru og hjálpast við að bera áburð í svörðinn.

Þar getur orðið til það skjólbelti sem þarf til að plöntur af öðrum meiði geti þrifist. Skjólbelti til að búa til þá sjálfbærni sem greinin þarf svo mjög á að halda.

Í könnunum sem gerðar hafa verið kemur fram að það sem þykir einkenna Vestfirði séu einstök, hrein og óspillt náttúra og nálægðin við hana. Kyrrðin og friðsældin. Þetta er sumsé hluti af okkar auði, okkar sparigrís sem við þurfum að fara svo gætilega með.

Umhverfisvottun Vestfjarða hefur nú verið samþykkt af öllum sveitarfélögum og er verkefni sem þau hafa ákveðið að stefna sameiginlega að undir formerkjum Fjórðungssambands Vestfirðinga. Ég veit ekki nákvæmlega hvar það verkefni stendur eins og er, en veit þó að lagt hefur verið eitthvað fjármagn í það af hinu opinbera. Ég geri  ráð fyrir að þar sé allt í einhverjum ákveðnum farvegi, því vilji er allt sem til þarf. Bara sú sameiginlega yfirlýsing sem Fjórðungssambandið gaf út með ákvörðun sinni hafði strax veruleg og góð áhrif í ferðaþjónustunni. Dæmi eru um að með henni þá hafi einstakir fjárfestar strax séð tækifæri og ákveðið að fjárfesta í greininni á svæðinu. Þetta verkefni sem var ýtt úr vör af Ferðamálasamtökum Vestfjarða er dæmi um fyrirmyndarverkefni sem við getum öll verið stolt af.

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar var haldin í fyrsta sinn á haustdögum. Hún tókst vel til og ég tel það mikilvægt að festa hana enn betur í sessi. Dýrfirðingar tóku á móti okkur með glæsibrag og við áttum saman tvo góða daga á þeim fagra stað. Það eina sem skyggði á var færðin en það vildi svo illa til að fyrsti vetrarstormur haustsins gekk yfir þessa helgi á Hrafnseyrarheiðinni og komust því færri en vildu. En við þurfum bara að læra af því og færa þessa gleðihelgi okkar framar á dagatalið. Bolvíkingar hafa boðist til að halda næstu uppskeruhátíð og við getum byrjað að hlakka til að hittast aftur næsta haust.

Nokkur umræða var í vetur um breytingu á öllu stoðkerfinu. Það var erfið umræða sem satt að segja tók frá mér nokkra orku. Stjórn ferðamálasamtakanna stóð þétt saman um að verja aðkomu greinarinnar að ákvörðunum. Það er skemmst frá því að segja að við urðum undir í þeim viðræðum. Mér þótti það sárt og upplifði mig satt að segja sem auman talsmann samtakanna í öllu því samtali. Á þessari stundu er ekki alveg á tæru hvernig samstarf ferðaþjónustunnar við sveitarfélögin verður háttað þegar kemur að Markaðsstofunni. Það er skýr og  fullur vilji hjá núverandi stjórn Ferðamálasamtakanna og AtVest að vinna að því að stofnanirnar starfi betur saman og sjá til þess að grasrótin hafi aðkomu að ákvörðunum. Það er þó ekki þannig að ég sjái það endilega sem einhverja ógn þó talsvert hafi borið á milli í skoðunum okkar og fulltrúa sveitarfélaganna. Ég trúi því einfaldlega að skynsemin verði ofan á og það muni að lokum allir sjá það, að í verkefnum sem viðkoma einstökum atvinnugreinum þurfa þær sjálfar að hafa aðkomu að ákvörðunum.

Það eru framundan nokkrar jákvæðar breytingar á úthlutun fjár til landshlutasamtaka líkt og okkar frá Ferðamálastofu. Undanfarin ár hafa fjármunir sem eru eyrnarmerktir þeim verið lagðar til Ferðamálasamtaka Íslands ásamt drjúgum sjóði til rekstur þeirra. Sú breyting verður á kerfinu að Ferðamálastofa mun framvegis hafa beint og nánara samband við landshlutasamtökin. Einnig verður stofnaður sérstakur sjóður sem landshlutasamtök geta sótt í fyrir verkefni sín. Við stöndum vel að vígi í því nýja kerfi vegna þeirrar vinnu sem við höfum lagt í undanfarin ár með stefnumótun vestfirskrar ferðaþjónustu. Sameiginleg verkefni sem koma fram þar munu falla vel inn í þann ramma og mun gera okkur kleyft að fjármagna alla þá vinnu sem framundan er. Þetta eru tillögur sem koma beint frá ferðamálastjóra og ég tel að við ættum að styðja heilshugar.

Ég hafði ákveðið að gefa ekki kost á mér til formennsku samtakanna fyrir þennan aðalfund og sent út tilkynningu þess efnis. Ég hef nú starfað í stjórn þeirra í fimm ár samfleytt og þar af verið formaður í þrjú. Þegar ég lít yfir farinn veg þá er ég fyrst og fremst þakklátur fyrir að hafa verið treyst fyrir þessu starfi og ég lít til baka nokkuð stoltur um öxl. Mér hefur þó fundist sem eldmóðurinn hafi verið að dofna og því réttur tími núna til að annar formaður taki við. Ég verð að viðurkenna að vinnan í vetur sem kom að stoðkerfinu hafði talsvert um það að segja að ég vildi draga mig í hlé. Eftir að við komum saman hér í Bjarkarlundi í gærkvöldi þá fann ég fyrir þeim mikla þrýstingi frá meðlimum samtakanna að ég gæfi kost á mér í eitt ár til viðbótar. Ég er semsagt tilbúinn til þess þar sem ég hef fundið fyrir því að ég hef mikinn stuðning ykkar til áframhaldandi verka. Ég vil trúa því að Ferðamálasamtök Vestfjarða muni standa enn sterkari sem hagsmunasamtök vestfirskrar ferðaþjónustu á eftir. Verkefni okkar verða eftir sem áður að verja sjálfstæði Markaðsstofunnar og sjá til þess að rödd okkar heyrist þar inni. Ferðamálasamtökin eru verkfæri okkar allra til að koma skilaboðum okkar á framfæri og standa vörð um greinina um allan fjórðunginn. Þau eiga að hafa það traust að það sé hægt að leita til þeirra af ferðaþjónustuaðilum og koma málefnum þeirra á framfæri.

Það er nokkuð mikið og að mörgu leyti öfundsvert starf að vera formaður samtakanna. Góðir kostir í því er að kunna þá kúnst að horfa á Vestfirði sem eina heild, hafa óbilandi trú á greininni, gleði af því að vinna með öðru fólki og ekki síst skilning á því að atvinnugreinin sjálf verður að vera þátttakandi í ákvörðunum sem varða vöxt hennar. Ekki er verra að hafa smá bein í nefinu, hugsjónir og trú á sjálfri sér eða sjálfum, reyna að tileinka sér víðsýni á öllum hlutum greinarinnar og síðast en ekki síst, að hafa áhuga til þess að vinna að framgangi greinarinnar af öllum þeim mætti sem skapaður er í einni lítilfjörlegri persónu.

Framundan hjá okkur er að vinna áfram sem hluti af grasrót ferðaþjónustunnar og stuðla að því að verkefni sem komin eru í gang dafni enn frekar innan þeirra mörgu háu trjáa sem vaxið hafa undanfarin ár og myndað það mikilvæga skjólbelti fyrir greinina sem henni er nauðsynlegt.

Skjólbelti samvinnu, trausts og vilja til að hlúa að öðrum.

- Fram til sigurs!

Sigurður Atlason