Skýrsla formanns frá aðalfundi FMSV þann 2. apríl 2011

Sigurður Atlason, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða
Sigurður Atlason, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða
Frá síðasta aðalfundi Ferðamálasamtaka Vestfjarða sem haldinn var í Hótel Núpi í Dýrafirði fyrir réttu ári síðan þann 17. apríl 2010, hafa verið haldnir átta stjórnarfundir. Þrisvar sinnum hefur stjórnin náð að hittast augliti til auglitis og fimm sinnum hafa fundir verið haldnir í gegnum síma. Stjórnin öll hefur verið starfsöm og tekið virkan þátt í þeim málefnum sem rædd hafa verið á fundunum.

Síðasta ár hefur verið mjög annasamt allt frá því að aðalfundinum á Núpi lauk. Í tengslum við þann aðalfund var haldin ráðstefnan Umhverfisvottaðir Vestfirðir sem var gríðarlega vel sótt og vakti mikla athygli. Nokkur vinna tók við að ýta á eftir að Fjórðungssamband Vestfirðinga hugaði að málinu með því að hnippa í mann og annan sem gætu haft áhrif í þá átt. Þing Fjórðungssambandsins var síðan haldið á Hólmavík þann 3. september. Þar ályktaði Fjórðungssambandið eftirfarandi um tillögu um umhverfisvottun Vestfjarða sem lögð var fram á þinginu.
  • Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkir að stefna að sameiginlegri umhverfisvottun Vestfjarða í heild samkvæmt staðli Earth Check undir forystu Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þingið felur stjórn og framkvæmdastjóra að kynna hugmyndina og kanna vilja sveitarstjórna og sækja um aðild að Earth Check fyrir Vestfirði í heild ef viðbrögð verða jákvæð.
Það er alveg óhætt að fagna þessari tillögu og ég held að Ferðamálasamtök Vestfjarða geti verið stolt af því að hafa þokað þessari umræðu af stað. Það er mín skoðun að þetta sé mikið hagsmunamál fyrir greinina og raunar alla íbúa á Vestfjörðum. Því er við að bæta að umræða um vottunarferlið er þegar komið af stað innan stjórnar Fjórðungssambands Vestfjarða og væntanlega berast fregnir af því innan skamms hvernig að því verði staðið.
 
Ferðamálasamtök Vestfjarða eru einn af þremur stofnaðilum Markaðsstofu Vestfjarða og eiga þar einn fulltrúa af þremur í stjórn. Formaður samtakanna hefur ávallt verið fulltrúi samtakanna í stjórninni. Síðastliðið vor var auglýst eftir nýjum forstöðumanni Markaðsstofunnar eftir að Jón Páll Hreinsson sagði upp störfum eftir fjögurra ára farsælt starf og sneri sér alfarið að öðrum verkefnum. Það var vandað til verka í öllu umsóknarferli og talsverður tími fór í fundarhöld vegna umsóknarferlisins. Að lokum ákvað stjórn Markaðsstofunnar að ráða Gústaf Gústafsson til starfa og hann hóf síðan störf í ágúst síðastliðinn. Hann hefur að mínu mati fært ferskan blæ inn í alla umræðu um markaðssetningu fjórðungsins á skömmum tíma og ég bind miklar vomir við að þau verk sem unnin verða innan markaðsstofunnar á næstu misserum eigi eftir að færa vestfirska ferðaþjónustu vel fram á veginn, í góðu samstarfi við alla aðila.
 
Anna Guðrún Edvardsdóttir hefur lengst af verið formaður stjórnar markaðsstofunnar og setið þar fyrir hönd Fjórðungssambandsins. Hún hætti í stjórninni fyrir skömmu og við af henni tók Albertína Friðbjörg Elíasdóttir. Ásgerður Þorleifsdóttir ráðgjafi hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða tók þá við formennskunni í markaðsstofunni. Ég vil nota tækifærið og þakka Önnu Guðrúnu fyrir frábært samstarf undanfarin ár og bjóða Albertínu hjartanlega velkomna í hópinn.
 
Ferðamálasamtökin opnuðu sérstaka sölusíðu á netinu fyrir göngukortin. Sú síða er eingöngu ætluð endursöluaðilum kortanna og var ætlað að auka sölu á kortunum og gera það þægilegra fyrir alla að nálgast kortin til að hafa í sölu hjá sér. Það er skemmst frá því að segja að vefsíðan jók verulega sölu á kortunum og gerði alla vinnu við afgreiðslu þeirra markvissari. Sölusíðuna er hægt að nálgast í gegnum heimasíðu Ferðamálasamtakanna www.vestfirskferdamal.is og ég vil hvetja ykkur til að nota hana þegar þið pantið kortin. Það er nú þannig að við erum öll starfandi í ferðaþjónustu og tengdum greinum og það er ekki alltaf tími til að svara símann og taka á móti pöntunum á háannatíma. Með þessu móti er hægt að ganga frá pöntunum án þess að hætta sé á því að handskrifaður minnismiðar týnist eða einfaldlega að það sé enginn tími til að sinna pöntuninn nákvæmlega á þeirri stundu sem hún berst.
 
Göngukort samtakanna eru mjög vönduð og ættu að vera til sölu á sem allra flestum stöðum í fjórðungnum. Ég vil hvetja alla ferðaþjónustuaðila, verslanir og aðra staði þar sem von er á ferðafólki að hafa kortin til sölu í hillunum hjá sér. Þau auka möguleika ferðamanna til afþreyingar og eru ekki síður gott verkfæri til að halda þeim lengur á svæðinu. Á næstu vikum verða endurútgefin þrú kort úr seríunni. Það er kort nr. 1, Hornstrandakortið,  kort nr. 2, kortið sem nær yfir Ísafjarðardjúp og suður í Dýrafjörð og kort nr. 4 sem tekur yfir Vesturbyggð og Tálknafjörð. Þið sem eruð hér á fundinum getið líka haft samband við mig hér á eftir til að leggja inn pöntun. Og ég hvet ykkur til þess.
 
Vestfirsk ferðaþjónusta hefur skorað hátt í könnunum undanfarið og umfjöllun áberandi miðla eins og Lonely Planet sýna það svart á hvítu að sérstaða Vestfjarða er algjör. Ég er sannfærður um að við megum eiga von á góðu tímabili framundan og það er eins gott að fara að undirbúa sumarvertíðina af kostgæfni. Þegar upp er staðið þá er það undir okkur sjálfum komið hvernig til tekst. Ef við, hvert og eitt okkar, hugum vel að gæðamálum, reynum að þoka opnunartímum fram á haustið og skapa greininni fleiri tækifæri yfir vetrarmánuðina þá er ég nokkuð sannfærður um að við munum sjá greinina vaxa hraðar en okkur getur órað fyrir.
 
Stefnumótunarvinnu vestfirskrar ferðaþjónustu er ekki lokið þó skýrslan sjálf sé komin út. Nú tekur við vinna við að framfylgja henni. Með henni stefnum við að ákveðinni framtíðarsýn árið 2015. Svo við getum staðið augliti til auglitis við hana á réttum tíma þá þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Það er nefnilega þannig að það er fátt ef ekkert sem gerist af sjálfu sér. Í stefnumótuninni koma fram verkefnatillögur þar sem frumkvæði er sett á ábyrgð ákveðinna aðila. Ferðamálasamtökin bera ábyrgð á nokkrum þáttum sem þarf að einhenda sér í á næstu vikum og mánuðum. Þar má nefna uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar sem haldin skal á hverju hausti, með þeim tilgangi að opna á betri kynni milli einstakra ferðaþjónustuaðila í fjórðungnum og auka þannig í leiðinni vægi í upplýsingagjöf til ferðamanna, því það er auðvitað nauðsynlegt að við þekkjum öll hvað sé í boði utan okkar venjulega umhverfis. Gæðamálin eru annar þáttur sem Ferðamálasamtökin þurfa að vinna að næsta vetur í góðu samstarfi við alla ferðaþjónustuna á Vestfjörðum og huga þarf sérstaklega að gæðaboðorðum ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan þarf að skuldbinda sig til þess að vinna eftir þeim en til þess að svo geti orðið þá þarf víðtæka samvinnu um gerð þeirra.  Markmiðið hlýtur alltaf að vera að við veitum úrvalsþjónustu og sýnum gott viðmót til ferðamanna.
 
Vestfirðir sem áfangastaður fengu sérstaka viðurkenningu á síðasta ári fyrir tilhlutan Vatnavina Vestfjarða – Eden verðaunin – European Destination of Excellence. Eden verðlaunin eru evrópskt samstarf og eru afhent ferðaþjónustu í hverju þáttökulandi einu sinni ári. Vatnavinir unnu sérlega glæsilega umsókn til verðlaunanna á síðasta ári í góðu samstarfi við Ferðamálasamtökin. Tveir fulltrúar vestfirskrar ferðaþjónustu fóru til Brussel í október s.l. til að taka á móti verðlaununum. Þar voru í för vatnavinurinn Vigdís Esradóttir og formaður Ferðamálasamtakanna. Það var gagnlegt að kynnast öllu því ferli og auðvitað ansi margt sem kom manni spánskt fyrir sjónir. Ekki síst ótrúlega stirðbusalegt og formlegt skipulag sem er eitthvað sem við lærum vonandi aldrei neitt af. En það var mikilvægt að hitta aðila frá öðrum lítt kunnum svæðum í Evrópu og getur síðan gefið tækifæri á frekari samstarfi. Í næstu viku verður Eden fundur á Möltu sem formaður ferðamálasamtakanna mun sækja ásamt forstöðumanni markaðsstofunnar. Þar verða Vestfirðir kynntir á málþingi og vonandi komum við til baka margs vísari um hvernig vestfirsk ferðaþjónusta getur nýtt sér þetta verkefni enn frekar.
 
Það felst talsverð markaðssetning á svæðinu með þessum verðlaunum. Stjórnendur Eden verkefnisins lét gera sérstök kynningarmyndbönd um áfangastaðina sem svæðin geta svo nýtt sér eins og þau vilja. Þessa dagana og allt fram til 19. júní verða þau sýnd reglulega og stundum oft á dag á EuroNews sjónvarpsstöðinni sem er varpað um allt meginland Evrópu.
 
Ferðamálasamtök Vestfjarða eru aðili að Ferðamálasamtökum Íslands. Formaður samtakanna hefur verið fulltrúi í stjórn þar frá upphafi. Í vetur gerði stjórnin þá breytingu að formaður skildi ekki sitja í stjórn þeirra samtaka, heldur annar stjórnarmaður. Stjórnin kaus síðan Sigurð Arnfjörð til að fara með atkvæði Ferðamálasamtaka Vestfjarða þar inni. Þetta var gert til að tryggja enn frekar að umræður sem fara fram innan Ferðamálasamtaka Íslands rati inn á borð landshlutasamtaka okkar. Með þessari breytingu er það von stjórnar FMSV að ákvarðanir og umræður sem varða málefni ferðaþjónustunnar rati frekar inn á borð stjórnar FMSV, sem geti svo fjallað efnislega um málin áður en endanleg niðurstaða liggur fyrir innan stjórnar FSÍ.

Stjórn FMSV telur að flest málefni sem koma inn á borð FSÍ krefjist ekki það skjótrar úrlausnrar að þeim sé ekki gefinn tími til umræðna innan stjórna landshlutasamtakanna. Með því að hafa almennan stjórnarmann FMSV í stjórn FSÍ álítur stjórn FMSV að með því sé ábyrgð stjórnarmanna samtakanna dreifðari og starf samtakanna verði gegnsærra.
 
Stjórn ferðamálasamtakanna hefur ákveðið að kaupa meirihlutaeign í ferðaskrifstofunni Vesturferðir á Ísafirði. Gengið hefur verið frá samkomulagi um að samtökin kaupi hluti Hótels Ísafjarðar, eignarhluti fjölskyldu Ólafs Arnar Ólafssonar og eignarhlut Flugfélags Íslands. Ætlunin með kaupunum er að tryggja öfluga upplýsinga- og sölugátt með skilvirkri bókunarþjónustu sem allir ferðaþjónustuaðilar í fjórðungnum hafi aðgang að. Unnið verður í nánu samstarfi við Markaðsstofu Vestfjarða og vefgáttin westfjords.is verður einnig nýtt til kynningar og sölu á vöru og þjónustu sem er í boði hverju sinni á svæði Ferðamálasamtaka Vestfjarða.

Með kaupunum mun gefast tækifæri fyrir öflugri samvinnu meðal allrar ferðaþjónustunnar með því að opna einn risastóran markað á vestfirskri ferðaþjónustu og opna sölusíðu þar sem hægt verður að versla beint allar þær vörur sem eru í boði í greininni. Gisting, afþreying, ferðapakkar og hvað annað sem vestfirsk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða verði öll á einum stað og viðskiptavinir munu ekki þurfa að velkjast um hvað er í boði í fjórðungnum. Auk þess eiga viðskiptavinir að geta verslað alla þjónustu sem þeim þóknast beint frá Vestfjörðum áður en af stað er haldið. Eins og staðan er í dag þá getur verið frekar flókið að átta sig á því hvað er raunverulega í boði í fjórðungnum og skilaboð eru oft misvísandi.

Ætlunin er að mjög breið samstaða verði um eignarhald Vesturferða og félagið verði nýtt sem allsherjar bókunarmiðstöð fyrir vestfirska ferðaþjónustu. Hagnaður af rekstri félagsins mun renna til markaðssetningar alls fjórðungsins og stórauka þannig fjármagn til markaðssetningar. Öllum verður gefinn kostur á að kaupa hlut í félaginu en Ferðamálasamtökin munu strax í sumar selja stóran hluta af 70,2% hluta sínum í Vesturferðum og halda eftir um 25% til að tryggja að sú stefnumótun sem fara mun fram innan félagsins haldi. Stefnt er að því að auka nokkuð hlutafé í félaginu. Þannig mun öllum gefast kostur á að kaupa hluti upp á 50 þús til 500 þús krónur á næstunni og verða um leið meiri áhrifaaðilar fyrir markaðssetningu fjórðungsins. Fyrirkomulag þessarar aðferðarfræði er sótt til ákveðinna svæða í Finnlandi þar sem svipað fyrirkomulag hefur tekist það vel upp að fjármagn til markaðssmála hefur margfaldast, aukið verulega við tekjur ferðaþjónustunnar og orðið hvati til aukinnar þjónustu og þar með skapa meiri atvinnu.
 
Seinna á fundinum mun stjórnin leita eftir staðfestingu aðalfundarins á kaupunum. Ef af henni verður þá liggur fyrir að breyta þurfi lögum samtakanna. Í þeim er enga grein að finna um hvernig tekið skuli á því hvaða rétt þeir félagsmenn sem segja sig úr samtökunum eiga til þeirra eigna sem félagið á hverju sinni, þar með talið til hlutafjár í einkahlutafélögum. Eins og lögin eru í dag þá mögulega geta einstakir félagsmenn ákveðið að hætta í félaginu og krafist sins eignarhluta með. Það er gat sem þarf að stoppa í til að koma í veg fyrir hverskyns vandræði sem stjórnarmenn samtakanna í framtíðinni þyrftu jafnvel annars að glíma við í réttarsölum með tilheyrandi fjárútlátum. Þessháttar klásúlur sem bæta þarf inn í lögin finnast í langflestum lögum félaga sem fara með eignir, en Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa verið eignalaus til þessa. Því mun stjórnin bera fram tillögu seinna á fundinum að honum verði frestað og aðalfundurinn samþykki að boða til framhaldsaðalfundar á næstunni. Með fundarboði fyrir þann fund fylgi tillaga að lagabreytingum sbr. 8.gr. núgildandi laga samtakanna.
  • Til að lagabreytingar öðlist gildi þarf 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi, enda berist tillaga um slíkt með fundarboði.
Tíminn yrði síðan notaður til þess að vinna nauðsynlegar lagabreytingatillögur. Í 6. grein laga samtakanna er kveðið á um hvernig skuli boðað til aðalfundar á þessa leið.
  • Aðalfundur skal boðaður með auglýsingu með minnst 2 vikna fyrirvara.
Þessi ábending um vöntun í lögum samtakanna kom fram hjá einum félaga þeirra fyrir aðeins tveimur dögum síðan. Strax í framhaldinu var leitað álits hjá Einari Erni Thorlacius lögfræðingi og fyrrverandi sveitarstjóra Reykhólahrepps sem starfaði með samtökunum og árabil og hefur því taugar til þeirra. Stjórnin mun því leggja fram þessa tillögu samkvæmt hans áliti.
 
Ég vil þakka fyrir margar góðar samverustundir með öllum þeim sem ég hef starfað með að málefnum ferðaþjónustunnar undanfarin ár. Við búum við mikinn mannauð í greininni og þá ekki síður í stoðkerfi greinarinnar sem hefur verið boðin og búin til aðstoðar á allan hátt. Meðan allir gera sitt besta þá þurfum við engu að kvíða í framtíðinni.
 
Góðar stundir.
 
Skrímslasetrinu á Bíldudal þann 2. apríl 2011
Sigurður Atlason
formaður FMSV