Skýrsla starfshóps um endurskoðun stoðkerfisins á Vestfjörðum

Starfshópur um endurskoðun stoðkerfis sem skipaður var fljótlega eftir Fjórðungsþing á haustdögum hefur lagt fram skýrslu með tillögum um breytingu á stoðkerfi Vestfjarða. Hópurinn sem var skipaður fulltrúum frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Markaðsstofu Vestfjarða,  Menningarráði Vestfjarða og Vaxtarsamningi Vestfjarða hefur skilað frá sér tillögum sem verða lagðar fyrir auka fjórðungsþing þann 25. nóvember næstkomandi. Starfshópurinn klofnaði í afstöðu sinni en fulltrúi Ferðamálasamtaka Vestfjarða í stjórn Markaðsstofunnar styður tillögu sem fram kemur í eftirfarandi áliti stjórnar samtakanna.

Skýrsla starfshópsins er að finna í heild sinni á þessum tengli http://vestfirskferdamal.is/skraarsafn/skra/70/ . Ályktun FMSV er einnig að finna aftast í skýrslu starfshópsins.

 
Ályktun og tillaga stjórnar Ferðamálasamtaka Vestfjarða vegna umræðu um sameiningu stoðkerfis á Vestfjörðum.

Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða telur fram komnar tillögur starfshóps um sameiningu stoðkerfis á Vestfjörðum óásættanlegar. Stjórnin lítur þannig á að verið sé að leggja niður Markaðsstofu Vestfjarða sem starfar fyrst og fremst sem markaðsstofa ferðamála, og þar með slíta tengsl grasrótarinnar við stoðkerfið.
 
Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa mörg undanfarin ár átt góð og árangursrík samskipti við Markaðsstofu Vestfjarða og er einn af stofnaðilum stofunnar og hafa lagt fram fjármuni árlega til reksturs hennar. Á sama hátt hafa Ferðamálasamtökin átt gott samstarf við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og fleiri stofnanir í stoðgrindinni.
 
Með þessum tillögum er verið að skerða verulega möguleika Ferðamálasamtakanna til samstarfs við stoðkerfið og minnka áhrif greinarinnar við stefnumótun og ákvarðanatöku. Ferðamálasamtökin vilja gjarnan að Markaðsstofa Vestfjarða vinni í náinni samvinnu við aðrar stoðstofnanir þannig að hinn mikli mannauður innan þeirra nýtist betur til góðra verka.
 
Mikilvægt er að fagstofnun eins og Markaðsstofu Vestfjarða sé tryggð sjálfstæði og starfsöryggi eins og núverandi samþykktir kveða á um.
 
Stjórnin sér fram á að með þátttöku í fagráði, eins og fram kemur í áðurnefndum tillögum starfshóps, muni fulltrúi ferðaþjónustunnar fjalla einungis að mjög takmörkuðu leyti um málefni greinarinnar. Að auki hafi fagráð takmörkuðu hlutverki að gegna sem ráðgefandi aðili til stjórnar nýrrar stofnunnar.
 
Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða hvetur sveitarstjórnarfulltrúa að endurskoða fram komnar tillögur. Hvergi er bent á kosti sameiningar fyrir Markaðsstofu Vestfjarða í tillögunum og ekkert sem sýnir fram á að sameining allra stoðstofnana muni efla þau verkefni sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir.

Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða leggur fram eftirfarandi tillögu:
Formlegt klasasamstarf verði myndað meðal allra stofnana undir stjórn og að frumkvæði Fjórðungssambands Vestfjarða ásamt aðkomu fulltrúa hins opinbera. Vettvangur þar sem öll helstu verkefni eru kynnt og samstarf stofnananna útfært eftir þörf. Allar stofnanir hafi sama viðmót, reynt verði eftir megni að tryggja þekkingarklasa á hverjum stað með því að starfsstöðvar verði undir sama þaki. Haldnir verði reglulegir samþættingarfundir með þátttöku starfsmanna og stjórna.