Stefnt að umhverfisvottuðum Vestfjörðum

Forsíða ráðstefnuritsins.
Forsíða ráðstefnuritsins.
„Ég hef á tilfinningunni að ráðstefnan hafi þegar gert það gagn að nú verði ekki aftur snúið í þessum málum og ég er mjög bjartsýnn á að Vestfirðingar séu tilbúnir að ræða þessi mál af alvöru og hrinda þeim í framkvæmd,“ segir Sigurður Atlason, formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða um ráðstefnuna Umhverfisvottaðir Vestfirðir sem haldin var á Núpi í Dýrafirði um helgina. Á ráðstefnunni voru haldin fjölbreytt erindi. Rætt var um stöðu umhverfismála á Íslandi og hvaða aðgerða sé hægt að grípa til, auk þess sem þessi mál voru sett í hnattrænt samhengi. Fjallað var um almennt viðhorf til náttúrunnar og sagðar reynslusögur af vottun einstakra fyrirtækja, með áherslu á mikilvægi vottunar fyrir markaðsstarf og daglegan rekstur. Loks var sagt frá sérstökum verkefnum, svo sem hugmyndum um rafbílavæðingu Íslands. „Ekki er nokkur vafi á að rafbílavæðing hefur víðtæk áhrif í samfélaginu. Nýting innlendra orkugjafa, bætt nýting núverandi raforkukerfis, gjaldeyrissparnaður, áhrif í ferðamannaiðnaði og fjölmörg önnur atriði hafa jákvæð fjárhagsleg áhrif á samfélagið. Minni mengun hefur að auki umhverfislegan ávinning fyrir land og þjóð,“ sagði í erindinu á ráðstefnunni.

Þá var tæpt á mikilvægi þess að Ísland í heild verði umhverfisvottað. „Heimurinn allur, ekki einungis Ísland, stendur nú á tímamótum og er nauðsynlegt að taka marga grunnþætti lífernis okkar til endurskoðunar til að draga úr neikvæðum áhrifum okkar á jörðina. Íslenskt samfélag hefur að auki orðið fyrir áfalli. Mikilvægt er að uppbygging og framtíð landsins byggi á sjálfbærni og sterku siðferði. Umhverfisvottun Íslands er ein leið til aukinnar sjálfbærni í lifnaðarháttum okkar og hefði jafnframt í för með sér margvísleg jákvæð áhrif á atvinnu- og mannlíf,“ sagði í erindi frá Náttúrustofu Vesturlands.

Ferðamálasamtök Vestfjarða stefna að því að fylgja ráðstefnunni eftir í samvinnu við Fjórðungssamband Vestfirðinga. Markmiðið er að umhverfisvottun Vestfjarða komist á dagskrá Fjórðungssambandsins og að vestfirsk sveitarfélög sameinist um að stefna að slíkri vottun.

Áhugasömum er bent á að hægt er að sjá ráðstefnuritið á vef Ferðamálasamtaka Vestfjarða og kynna sér hvað kom fram á ráðstefnunni í stuttu máli.

thelma@bb.is
http://bb.is/Pages/26?NewsID=147286