Stoðgrein ferðaþjónustu á Vestfjörðum

 

Ferðaþjónusta er grein sem hefur vaxið mjög ört á Vestfjörðum eins og á landinu öllu síðastliðin ár. Greinin er ung og mikil vöruþróun og uppbygging á sér stað en það er eins með þessa grein og aðrar greinar að hlúa þarf vel að fyrirtækjum og frumkvöðlum varðandi mismunandi ráðgjöf og aðra nauðsynlega þjónustu sem hugsanlega þarf á að halda.

Stoðgrein í ferðaþjónustu er hugtak sem margir eiga ef til vill erfitt með að átta sig á og skilgreina hverjir tilheyra stoðgreininni og hvaða hlutverki þeir gegna.  Á Vestfjörðum eru fjölmargir sem mynda stoðgreinina og margvísleg þjónusta er í boði fyrir aðila í ferðaþjónustu en stoðgreinina má skilgreina sem aðila innan hins opinbera, sveitafélög og félagasamtök sem hafa það hlutverk að vinna með og aðstoða ferðaþjónustufyrirtæki varðandi vöruþróun, ráðgjöf, markaðssetningu, fræðslu og fleira og stuðla þar með að bættu rekstrarumhverfi þeirra.

Á Vestfjörðum eru það aðilar eins og t.d Atvest og Markaðsstofa Vestfjarða ásamt fjölda annarra sem mynda stoðkerfið en einnig spila Útflutningsráð og Ferðamálastofa mikilvægt hlutverk.

Það er mikilvægt að stoðgreinin sé gegnsæ og auðvelt sé fyrir ferðaþjónustuaðila að geta leitað til greinarinnar  með sín viðfangsefni. Það er einnig mikilvægt að geta sýnt með afgerandi hætti hverjar starfslínur og verksvið hvers og eins er og þar með undirstrikað á hvaða sviði sérþekking einstakra aðila eða stofnanna liggur.

Núna stendur yfir vinna undir forystu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða, þar sem þau fyrirtæki og stofnanir sem koma að stoðgreinni hittast í þeim tilagangi að skilgreina sín verkefni og hvernig þau geta unnið sameiginlega að því markmiði að bæta innra og ytra umhverfi ferðaþjónustufyrirtækja á Vestfjörðum.   Slík vinna er löngu tímabær og mikið fagnaðarefni að þeir aðilar sem mynda stoðgreinina séu farnir af stað með slíka vinnu.

Afraksturinn verður tekin saman í rit þar sem áherslur og verkefni þeirra stofnanna og annarra aðila sem eru í stoðgreininni  verður gerð skil.

 

 

Ásgerður Þorleifsdóttir

Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða

 

Jón Páll Hreinsson

Markaðsstofu Vestfjarða