Strandabyggð leggur fram tillögu um umhverfisvottun Vestfjarða á fjórðungsþingi

Ráðstefnuritið Umhverfisvottaðir Vestfirðir
Ráðstefnuritið Umhverfisvottaðir Vestfirðir
Eins og öllum sem fylgst hafa með starfsemi Ferðamálasamtaka Vestfjarða undanfarna mánuði ætti að vera kunnugt, þá stóðu samtökin fyrir mikilli umræðu og ráðstefnu um umhverfisvottaða Vestfjarða á vordögum. Mætingin á ráðstefnuna sem haldin var á Núpi í Dýrafirði var samkvæmt björtustu vonum og ráðstefnugestir fóru þaðan margs vísari. Stefnt var að því að málefnið yrði tekið upp á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga núna í haust.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt tillögur þess efnis að stefna skuli að Umhverfisvottun Vestfjarða þannig að fullnaðarvottun verði náð vorið 2012. Jafnframt mun sveitarstjórn Strandabyggðar leggja fram tillögu í þá veru á þingi Fjórðungssambands Vestfirðinga sem haldið verður á Hólmavík dagana 3. - 4. september n.k. og leita eftir víðtæku samstarfi allra sveitarfélaga í fjórðungnum.

Ferðamálasamtök Vestfjarða fagna að sjálfsögðu þessari ákvörðun Strandabyggðar og hvetja önnur sveitarfélög á Vestfjörðum að sameinast um tillöguna. Miðað við viðbrögð og áhuga sveitarstjórnarmanna og annarra sem tóku þátt í framboðum á Vestfjörðum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á liðnu vori þá er full ástæða til að trúa því að tillaga Strandamanna verði samþykkt og Vestfirðingar sameinist um að tillagan verði að veruleika.

Hægt er að skoða ráðstefnuritið sem gefið var út í tengslum við ráðstefnuna með því að smella hér og kynna sér hvað kom fram á ráðstefnunni í stuttu máli.