Sumarmarkaður Vestfjarða á Patreksfirði

Sumarmarkaður Vestfjarða verður haldinn í fyrsta sinn í Pakkhúsinu á Patreksfirði laugardaginn 30. maí og verður opnunartími á laugardögum í sumar frá kl. 13-17. Á sumarmarkaðnum verður reynt að skapa skemmtilega markaðsstemmningu í bland við uppákomur, leiki, tónlist og fjör. Fyrsti markaðsdagurinn er á sama tíma og Skjaldborgarhátíðin er á Patreksfirði og næsti laugardagur þar á eftir er önnur fjölmenn hátíð Sjómannadagshátíðin. Von er á fjölda gesta vegna þessara hátíða og gefst öllum Vestfirðingum nær og fjær því tækifæri til að koma heimagerðum vörum á framfæri og selja þær fyrir ferðamenn og heimamenn. Markaður verður síðan haldin á Bíldudal þegar hátíðin Bíldudals grænar baunir verður í lok júní.


Pakkhúsið á Patreksfirði var byggt í þremur hlutum: Sá elsti er byggður af Ólafi Jóhannessyni, kaup- og útvegsmanni, árið 1896 sem fiskgeymsla. Yfirsmiður þess var Gunnar Backmann. Þessi hluti var 12,6 x 15,8 m að grunnfleti, tvíloftað með 11 risþaki. Árið 1906 er byggt við þurrkhús u.þ.b. metra hærra en einungis 3,7 x 5,4 m að grunnfleti. Um 1907 er fyrra húsið lengt um 9,4 m í sömu hlutföllum.
 

Við hvetjum Vestfirðinga til að leggja leið sína á Patreksfjörð á laugardögum í sumar. Þeir sem hafa áhuga á að selja vöru sína geta leigt bás gegn vægu verði; 1.500 kr. Einnig er hægt að fá aðgang að rafmagni t.d. fyrir kæli- eða frystiskáp og kostar það 1.500 krónur aukalega.
 

Hafið samband við eftirfarandi aðila til að leigja bás: Guðrún Eggertsdóttir s: 4902350, Magnús Ólafs Hansen s: 4902301, María Ragnarsdóttir s: 4905095 og nánari upplýsingar á www.vesturbyggd.is