Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar er framundan

Framundan er uppskeruhátíð vestfirskrar ferðaþjónustu en stefnt er að því að ferðaþjónustaðilar og starfsfólk þeirra geri sér glaðan dag á Hótel Núpi í Dýrafirði laugardaginn 15. október n.k. Stefnt er að því að þetta verði árlegur viðburður og færist á milli staða frá ári til árs. Hugmynd að uppskeruhátíðinni á rætur sínar að rekja til stefnumótunarvinnunnar sem lögð var fram á síðasta ári en í henni er gert ráð fyrir að hausthátíðin verði haldin í fyrsta sinn haustið 2011. Verkefnið er sameiginlegt verkefni Ferðamálasamtaka Vestfjarða og Markaðsstofu Vestfjarða. Verið er að vinna að dagskrá sem verður kynnt í næstu viku. Það er allavega óhætt að fara að taka daginn frá og hefja undirbúning til að hitta kollega sína´frá öllum fjörðum og víkum fjórðungsins í góðu fjöri um miðjan október.