Verðlagning hjá ferðaþjónustuaðilum á Vestfjörðum fyrir 2009

Frá Breiðavík
Frá Breiðavík

Nýverið stóð Markaðsstofa Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða fyrir rannsókn meðal ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum. Tilgangurinn var að kanna viðhorf til verðlagningar á þjónustu ferðaþjónustufyrirtækja fyrir næsta ár.

Rannsóknin fór fram með því að hringja í ferðaþjónustufyrirtæki og spyrja nokkurra spurninga um verðlagningu þeirra. Gengið var út með:

Markmið: Veita ferðaþjónustuaðilum upplýsingar um hvað er framundan í verðlagningu á þjónustu.

Spurning: Hvað gerir þú ráð fyrir miklum hækkunum á þinni þjónustu fyrir næsta ár.

 

Niðurstöður þessarar könnunar eru í stuttu máli að mat rannsakenda er að ferðaþjónustuaðilar munu almennt hækka verð á gistingu og annarri þjónustu (mat) um 12-15% fyrir næsta ár og hallast fleiri að 15% hækkun. Flestir gefa upp verð í Íslenskum krónum. Einhverjir hafa hugsað um að gefa verð upp í Evrum, en það virðist ekki vera algengt.

 

Þessi til viðbótar var haft samband við ferðaskrifstofur um hver væri þeirra hugur varðandi verðlagningu fyrir næsta ár. Niðurstaða úr þeim viðtölum er að verð hækkaði frá ferðaþjónustufyrirtækjum um allt land um 7-12% í haust. Undanfarið væri hinsvegar miklu meiri pressa um að hækka þessi verð enn frekar, sem styður niðurstöðuna um 15% hækkun.

 

Það er ljóst að ferðaþjónustuaðilar um allt land munu hækka verð fyrir næsta sumar, enda eru kostnaðarhækkanir framundan. Nokkur óvissa er um hversu miklar hækkanir verða á aðföngum, enda litlar upplýsingar í boði á þessari stundu.

 

Upplýsingar sem eru í boði núna og hafa áhrif á kostnað ferðaþjónustufyrirtækja eru:

  • Raforkusala á Vestfjörðum hækkað um 6%
  • Launavísitala hefur hækkað um 9,11% frá því á sama tíma og í fyrra, þetta er meðaltal en í iðnaði var meðalhækkun 5,9% og 4,4% í verslun.
  • Meðalvextir hækkað um 12%
  • Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 13,5% sem gefur vísbendingu um hækkun matvæla en þó er ýmislegt þarna inni sem ætti ekki að taka mið af við verðlagningu hjá ferðaþjónustunni.
  • Spá Glitnis varðandi verðbólgu næstu 12 mánuði er 15,8% verðbólga, þetta er þó með fyrirvara um þær ákvarðanir sem teknar verða hjá ríkisstjórninni.

 

Þessar tölur eru einungis til viðmiðunar og geta breyst (og hafa örugglega breyst síðan þetta var tekið saman).


Nánari upplýsingar um rannsóknina er hægt að nálgast hjá Markaðsstofu Vestfjarða eða AtVest.

mbk,

Jón Páll