Pretour um sunnanverða Vestfirði á mánudag og þriðjudag - munið að senda upplýsingar um nýjungar sem fyrst

Markaðsstofa Vestfjarða í samvinnu við ferðaþjóna og flugfélagið Erni standa fyrir ,,pretour" eða kynningu á sunnarverðum Vestfjörðum, fyrir kaupendur í tengslum við ráðstefnuna Vestnorden sem haldin er á Akureyri að þessu sinni. Nánari upplýsingar um ferðina er hægt að nálgast hér: www.vestnorden.com. Guðrún Eggertsdóttir hjá Atvest á veg og vanda að undirbúningi og skipulagningu ferðarinnar sem er hin glæsilegasta.

Ferðaþjónar á svæðinu geta hitt kaupendurna á Skrímslasetrinu þriðjudaginn 14. september. Þar gefst tækifæri til að spjalla yfir kaffi og vöfflum.

Að þessu sinni völdu 5 aðilar Vestfirði og vonum við að þessi ferð skili góðum árangri.

Vestnorden byrjar svo 15. september nk. og vil ég minna ferðaþjóna á að senda upplýsingar um nýjungar á undirritaðan ekki seinna en á fimmtudaginn þann 9. nk., því öll næsta vika fer í ferðina og svo sýninguna sjálfa. Upplýsingarnar má senda beint á gustaf@westfjords.is eða info@westfjords.is. Einnig er hægt að ná mér í sima 450-4040 eða 662-4156. Bæklinga má senda á Markaðsstofa Vestfjarða, Aðalstræti 7, 400 Ísafirði.

Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkir að stefna að sameiginlegri umhverfisvottun Vestfjarða

Frá einum stefnumótunarfundi FMSV
Frá einum stefnumótunarfundi FMSV
Fjórðungsþing Vestfjarða sem haldið var á Hólmavík dagana 3. - 4. september s.l. fjallaði þar um tillögur um að stefna að umhverfisvottun Vestfjarða. Eftirfarandi ávörðun var tekin.

 

Fjórðungsþing Vestfirðinga samþykkir að stefna að sameiginlegri umhverfisvottun Vestfjarða í heild samkvæmt staðli Earth Check undir forystu Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þingið felur stjórn og framkvæmdastjóra að kynna hugmyndina og kanna vilja sveitarstjórna og sækja um aðild að Earth Check fyrir Vestfirði í heild ef viðbrögð verða jákvæð.

 

Ferðamálasamtök Vestfjarða fagna þessari tímamótaákvörðun og vonast til þess að fagleg vinna við umhverfisvottun alls svæðisins hefjist sem allra fyrst. Í stefnumótunarvinnu samtakanna s.l. vetur kom fram mikill áhugi meðal ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum að huga verulega að öllum umherfisþáttum í ákvörðunum greinarinnar og allrar stjórnsýslu sem mun geta haft verulega jákvæð áhrif fyrir allar útflutningsgreinar í landinu.

Strandabyggð leggur fram tillögu um umhverfisvottun Vestfjarða á fjórðungsþingi

Ráðstefnuritið Umhverfisvottaðir Vestfirðir
Ráðstefnuritið Umhverfisvottaðir Vestfirðir
Eins og öllum sem fylgst hafa með starfsemi Ferðamálasamtaka Vestfjarða undanfarna mánuði ætti að vera kunnugt, þá stóðu samtökin fyrir mikilli umræðu og ráðstefnu um umhverfisvottaða Vestfjarða á vordögum. Mætingin á ráðstefnuna sem haldin var á Núpi í Dýrafirði var samkvæmt björtustu vonum og ráðstefnugestir fóru þaðan margs vísari. Stefnt var að því að málefnið yrði tekið upp á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga núna í haust.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur samþykkt tillögur þess efnis að stefna skuli að Umhverfisvottun Vestfjarða þannig að fullnaðarvottun verði náð vorið 2012. Jafnframt mun sveitarstjórn Strandabyggðar leggja fram tillögu í þá veru á þingi Fjórðungssambands Vestfirðinga sem haldið verður á Hólmavík dagana 3. - 4. september n.k. og leita eftir víðtæku samstarfi allra sveitarfélaga í fjórðungnum.

Ferðamálasamtök Vestfjarða fagna að sjálfsögðu þessari ákvörðun Strandabyggðar og hvetja önnur sveitarfélög á Vestfjörðum að sameinast um tillöguna. Miðað við viðbrögð og áhuga sveitarstjórnarmanna og annarra sem tóku þátt í framboðum á Vestfjörðum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á liðnu vori þá er full ástæða til að trúa því að tillaga Strandamanna verði samþykkt og Vestfirðingar sameinist um að tillagan verði að veruleika.

Hægt er að skoða ráðstefnuritið sem gefið var út í tengslum við ráðstefnuna með því að smella hér og kynna sér hvað kom fram á ráðstefnunni í stuttu máli.

Vest Norden Pre túrinn verður um Suðurfirðina

Látrabjarg verður meðal annars heimsótt í ferðinni
Látrabjarg verður meðal annars heimsótt í ferðinni
Vest norden ferðakaupstefnan verður haldin á Akureyri í næsta mánuði. Að venju er boðið upp á svokallaða pre-tours fyrir erlenda þátttakendur kaupstefnunnar um Vestfirði. Að þessu sinni hafa ferðaþjónustuaðilar á sunnanverðum Vestfjörðum aðstoðað Markaðsstofuna við ferðina og skipulagt glæsilega ferð um svæðið sitt. Gert er ráð fyrir að flogið verði með hópinn til Bíldudals og skoðaðir valdir ferðamannastaðir á tveimur dögum í því augnamiði að selja ákveðnar ferðir inn á svæðið. Ekki er ennþá vitað hver verður þátttakan í ferðinni en skráning stendur yfir hjá skipulagsstjórn ferðakaupstefnunnar. Dagskrána er hægt að skoða á vef Vest Norden með því að smella hér.

Áríðandi skilboð - Vestnorden sýnendur óskast

Ágætu ferðaþjónar,

Að venju stefnir Markaðsstofa Vestfjarða að þátttöku í kaupstefnunni Vest Norden sem fer fram á Akureyri dagana 14. - 16. september.

Vestnorden, ein mikilvægasta ráðstefna íslenskrar ferðaþjónustu nálgast óðfluga og er nú haldin á Akureyri, nánar tiltekið í ráðstefnu- og tónlistarhúsinu Hofi dagana 14. - 16. september. Sjá hér.

Markaðsstofa mun eftir sem áður kynna vestfirska ferðaþjónustu en vill óska eftir þátttakendum til þess að sýna í samstarfi við Markaðsstofu Vestfjarða.

Þeir aðilar sem hafa áhuga geta nálgast grunnupplýsingar á heimasíðu Vestnorden: http://www.vestnorden.com og upplýsingar fyrir sýnendur eru hér.

Mikilvægt er að bregðast hratt við því gert er ráð fyrir að gistirými klárist fyrir 31.júlí nk.

Að auki eru allar fréttir af fyrirhuguðum nýjungum ferðaþjónustu vel þegnar. Markaðsstofa mun eins og áður hafa með bæklinga frá ferðaþjónum. Ef þið liggið á bæklingum sem ekki eru á upplýsingamiðstöðvum, viljum við gjarnan fá eintök. En tölvupóstur (með myndum, ef til eru) dugar fyrir fréttir af nýjungum.

Vestfirskir ferðaþjónustuaðilar sem eru að selja ferðir, eða hafa hug á að selja ferðir og hafa áhuga á að taka þátt í kaupstefnunni með Markaðsstofunni eru vinsamlega beðnir um að hafa samband við Sigurð Atlason, netfang vestfirdir@gmail.com eða í síma 897 6525 fyrir n.k. fimmtudag 29. júlí. Frestur til skráningar fer að renna út og því þarf að láta hendur standa fram úr ermum ef tryggja á þátttöku með Markaðsstofunni á Vest Norden kaupstefnunni.