Melrakkasetur hefur verið opið í einn mánuð

Nú hefur Melrakkasetrið verið opið í mánuð og hefur sá mánuður aldeilis verið viðburðarríkari en við höfðum gert ráð fyrir.

Yfir fimm hundruð manns hafa heimsótt sýninguna okkar, fyrir utan hátt í þrjúhundruð manns sem komu á opnunarhelginni, og höfum við fengið lof og prís fyrir hversu vel hefur tekist til. Það er þó gaman að geta sagt frá því að enn er eftir að bæta talsvert miklu við sýninguna því mikið viðbótarefni er í vinnslu, til dæmis barnaleiðsögn. Við höfum fengið í heimsókn eldriborgarahópa af Austurlandi og Ausfjörðum, leikskólabörn frá Ísafirði og Súðavík, hjóla- og göngugarpa ásamt sumarbúum og mörgum fleirum.

Svo eru okkur að berast munir að gjöf og láni frá refaveiðimönnum og öðrum áhugasömum, til dæmis bækur frá Þórði ljósmyndara. Guðmunda Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar Einarssonar (Nú brosir nóttin) færði okkur yrðlingaboga sem eiginmaður hennar, Jón „rebbi" Oddsson átti og notaði. Guðmundur Guðmundsson, sonur Guðmundar Stefáns Guðmundssonar refaskyttu, tvíburabróður Þorláks Guðmundssonar (Hrefnu Láka), kom með mynd og frásagnir af föður sínum sem fæddist hér í Eyrardal. Guðmundur þessi var refaskytta á stóru svæði hér á norðanverðum Vestfjörðum og hélt yrðlinga í girðingu í Hnífsdal. Sagt er frá svaðilförum þeirra bræðra í bókinni „Vaskir menn". 


Guðmundur Jakobsson frá Reykjafirði fláði og spýtti sex melrakkabelgi á gömlum þurrkgrindum frá Reykjafirði annars vegar og Litlabæ (Finnbogi Pétursson) hinsvegar. Guðmundur gaf síðan Melrakkasetrinu skinnin og erum við afar þakklát honum fyrir enda mikið og vel unnið verk og falleg skinn.


Einnig ber að nefna einstakt frímerkjasafn Helga Gunnarssonar rannsóknarlögreglumanns frá Hafnarfirði en hann hefur safnað frímerkjum, póstkortum og fleiru, með merkjum og myndum af melrökkum, frá ýmsum heimshornum. Það er fengur fyrir okkur að fá að sýna þetta merka safn sem Helgi hefur sett saman á skemmtilegan hátt í máli og myndum. Hafa komið hingað lögreglumenn í fullum skrúða til þess eins að berja þetta merka safn hans augum.

Okkur barst á dögunum myndarlegur fjárstyrkur frá Kristjönu Samúelsdóttur og var hann notaður sem stofnfé í sérstakan styrktarsjóð sem við köllum „Jönusjóð" og þangað munum við leggja inn fjárhæðir sem berast Melrakkasetrinu. Það fyrsta sem okkur langar að safna fyrir er svokölluð vefmyndavél en þá getum við fylgst með dýrunum úti í náttúrunni af skjá hér á setrinu eða í tölvunni í gegnum internetið. Bandarísk fjölskylda sem fór með okkur í ævintýraferð á refaslóðir færði okkur einnig fjárrstyrk í Jönusjóðinn.

Kaffihúsið „Rebbakaffi" þykir hið allra notalegasta og eru gestir duglegir að setjast niður úti á palli eða inni í stásstofunni og hefur rebbakakan og vafflan með rebbabarasultunni aldeilis slegið í gegn - svo ekki sé talað um hvað fólki þykir gott að fá sér einn kaldan eftir gönguferð í góða veðrinu.

Leikhúsloftið okkar, þar sem veiðimaðurinn hefur „gaggað í grjótinu" á fimmtudagskvöldum, hefur einnig vakið mikla lukku og eru nú tvær sýningar eftir af einleiknum - nokkur sæti eru laus í kvöld kl. 20 en svo er síðasta sýningin eftir viku, fimmtudaginn 22. júlí.

Frosti litli hefur komið í heimsókn af og til en nú erum við að leggja lokahönd á gerði handa honum þar sem ætti að fara vel um hann þegar hann kíkir við í sumar. Hann er um 7 vikna og af hvíta litarafbrigðinu. Þegar hann hefur stækkað og orðið meira sjálfbjarga mun hann fá frelsið undir eftirliti þeirra í Heydal í Mjóafirði. Það verður gaman að hitta hann þar í vetur og við ætlum að fylgjast með honum vaxa og verða að fullorðnum ref.

Við fengum Mörthu Ernstdóttur í heimsókn en hún er m.a. jógakennari og var farið í jóga hér á pallinum í morgunsólinni. Má segja að hér hafi einhver dásemdar heilun legið yfir mannskapnum og var himnasælusvipur á andlitunum þegar æfingunni lauk. Við erum afar þakklát Mörthu fyrir þessa yndislegu stund en hún þvertók fyrir að þiggja laun fyrir og er þetta hennar framlag til setursins.

Stærsti viðburðurinn í Eyrardalnum það sem af er júlímánuði er þó tvímælalaust brúðkaup Steina og Rósu þann 11. júlí. Athöfnin fór fram uppi á lofti Melrakkasetursins og var útbúið altari við skorsteininn þar sem Sr. Valdimar sóknarprestur gaf brúðhjónin saman. Gestirnir voru um 40, systkini og afkomendur brúðhjónanna en Steini og systkini hans níu eru fædd og uppalin hér í Eyrardal. Það var falleg stund og gaman að sjá hvað fólkið sem þekkti húsið í gamla daga var ánægt með hversu vel hefur t! ekist til með uppbygginguna. Fyrir okkur var einnig gott að vita að hér er auðveldlega hægt að halda veislur af þessari stærðargráðu og bjóðum gjarnan upp á slíkt í framtíðinni.

Framundan er nóg af verkefnum: næstsíðasta leiksýningin, Gaggað í grjótinu er í kvöld kl. 20 og á morgun ætla konurnar að hittast á læðukvöldi og skemmta sér saman á Melrakkasetrinu.

Það er spennandi að sjá hvað næsti mánuður ber í skauti sér en bjóðum alla velkomna í sæluna í Eyrardal .

 

www.melrakkasetur.is


Nýr forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða ráðinn

Gústaf Gústafsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða frá og með 1. ágúst nk. Gústaf mun sinna verkefnum á sviði markaðssetningar Vestfjarða í samvinnu við hagsmunatengda aðila.

Gústaf hefur margþætta reynslu af markaðsmálum og var markaðs- og fjáröflunarstjóri Krabbameinsfélags Íslands frá ársbyrjun 2006 til 1. júlí á þessu ári. Gústaf byggði upp og var ábyrgur fyrir verkefnum eins og Mottumars og Bleika slaufan, sem allir landsmenn þekkja. Gústaf er að upplagi kerfisfræðingur en hefur sérhæft sig í markaðsmálum undanfarinn áratug og lauk meðal annars námi í Samhæfðum markaðssamskiptum hjá HR nú í vor.

Gústaf er fimm barna faðir og giftur Sigrúnu Bragadóttur viðskiptafræðingi. Stjórn Markaðsstofu Vestfjarða býður Gústaf hjartanlega velkominn til starfa.

Ferðamálasamtök Vestfjarða 26 ára í dag

Mynd af www.westfjords.is
Mynd af www.westfjords.is
Í dag eru 26 ár frá því að Ferðamálasamtök Vestfjarða voru stofnuð. Það var þann 21. júní árið 1984 sem boðað var til stofnfundar samtakanna af undirbúningsnefnd sem starfað hafði saman frá því fyrr um vorið. Stofnfundurinn var haldinn á Hótel Ísafirði og á fundinn voru mættir um 30 manns víðsvegar af Vestfjörðum. Reynir Hrólfsson setti þennan fyrsta fund samtakanna og bauð alla velkomna og fól síðan Úlfari Ágústssyni fundarstjórn.

Á fundinn var einnig mættur Birgir Þorgilsson, þáverandi markaðsstjóri Ferðamálaráðs sem flutti erindi um stöðu ferðamála á Íslandi. Í máli hans kom meðal annars fram að ferðaþjónusta skipaði stóraukinn sess í atvinnumálum Íslendinga auk þess sem hann kom inn á þá alkunnu staðreynd að góðar samgöngur væri forsenda fyrir ferðaþjónustu og hvatti Íslendinga til að ferðast um landið. Einnig nefndi hann í erindi sínu þennan dag árið 1984 að stöðug aukning hefði verið á komu erlendra ferðamanna til landsins undanfarin ár og að á árinu áður hefðu verið seldar um 700.000 gistinætur og velta ferðaþjónustunnar hefði verið um 2,9 milljarðar króna.

Á stofnfundi samtakanna voru lögð fram drög að lögum félagsins sem voru samþykkt eftir nokkrar umræður. Fyrsti formaður samtakanna var kjörinn Reynir Adolfsson og aðrir í fyrstu stjórn samtakanna voru þau Úlfar Ágústsson, Jóhannes Ellertsson, Auðunn Karlsson, Arnheiður Gunnarsdóttir og Hörður Guðmundsson.

Í umræðum á stofnfundinum var tæpt á mörgum málum sem sum hver eru ennþá í umræðunni. Rætt var nokkuð um friðlandið Hornstrandir og möguleika þess í vestfirskum ferðamálum og æskileg væri að skapa betri aðstöðu til að þeir ferðamenn gerðu meiri stans á Ísafirði og nágrenni. Látrabjarg var til umræðu og lögð áhersla á að vestfirsk náttúra og atvinnuhættir fjórðungsins væri helsta aðdráttaraflið. Umræður um skipulagðar ferðir innan fjórðungsins voru nokkrar og rætt um sérstök ferðatilboð. Kynningarmál voru rædd á stofnfundinum, sem í dag eru kölluð markaðsmál og hafa auðvitað verið eitt helsta umræðuefni ferðamálasamtakanna síðan. Komið var inn á starfsemi upplýsingamiðstöðva eða "sérstaka staði í hverju byggðarlagi sem miðlaði upplýsingum". Nokkrar umræður urðu einnig um ferðamál vítt og breitt og sérstaklega lagt til að fyrsta stjórn samtakanna beitti sér strax fyrir umbótum í hreinlætisaðstöðu í fjórðungnum og skrifaði sveitarstjórnum bréf um það mál.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Á síðasta ár skráir Hagstofan 2,9 milljónir gistinátta. Velta ferðaþjónustunnar á Íslandi var komin í 135 milljarða króna á árinu 2009 og er svo komið að greinin er orðin ein af helstu stoðum íslenskts efnahagslífs. Á Vestfjörðum hefur sprottið upp fjöldi afþreyingafyrirtækja og á svæðinu öllu er að finna mörg fyrirmyndar menningarverkefni sem draga að fjölda ferðamanna í fjórðunginn. Eins og fram kemur í þessari stuttu yfirferð um stofnfund Ferðamálasamtaka Vestfjarða á afmælisdegi þeirra þá bíða mörg ærin eilífðarverkefni ennþá úrlausnar sem frumkvöðlar samtakanna hófu strax baráttu fyrir.

Ég vil óska Ferðamálasamtökum Vestfjarða til hamingju með daginn og senda öllum fyrirrennurum mínum í öllum stjórnum þessara merku samtaka í gegnum árin heillaóskir og ferðaþjónustuaðilum á Vestfjörðum baráttukveðjur.

Framundan eru spennandi tímar og verkefni ferðaþjónustunnar á Vestfjörðum og stoðkerfisins alls eru ærin og ekki síður ábyrgðarmikil. Það er allt undir okkur öllum komið sem störfum í greininn hvernig til tekst. Ég lít björtum augum til framtíðarinnar, þar sem fagmennska verði höfð að leiðarljósi í öllum þáttum greinarinnar. Það skuldum við því góða fólki, frumkvöðlunum sem mættu á stofnfundinn og lögðu sitt á lóðarnar á Hótel Ísafirði þann 21. júní fyrir 26 árum síðan.

Enn og aftur til hamingju með daginn.

Sigurður Atlason
formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða

Erill á Upplýsingamiðstöðinni á Hólmavík

Upplýsingamiðstöð ferðamála á Hólmavík
Upplýsingamiðstöð ferðamála á Hólmavík
Upplýsingamiðstöð ferðamála á Ströndum er starfrækt í húsnæði Galdrasafnsins á Hólmavík þetta sumar en Strandagaldur tók að sér rekstur hennar fyrir sveitarfélagið Strandabyggð. Miðstöðin er opin alla daga frá 9:00 - 18:00 og verður opin daglega fram til 15. september. Undanfarna daga hefur starfsfólk Strandagaldurs sem einnig sér um upplýsingamiðstöðina meðal annars unnið að endurgerð heimasíðu hennar sem er að finna á slóðinni www.holmavik.is/info. Þar er að finna upplýsingar um ferðaþjónustu á Ströndum, vegalengdir og myndbönd frá Ströndum. Talsverðar gestakomur eru inn á Upplýsingamiðstöðina á hverjum degi og eykst með hverjum deginum. Ferðaþjónar á Vestfjörðum eru hvattir til að senda bæklinga og annað efni til að birta á miðstöðinni.

Könnun um nýtingu hafs og strandar

Undanfarið hefur verið í gangi könnun á meðal ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum um viðhorf þeirra til nýtingu hafs og strandar.  Er ætlað að niðurstöður þessarar könnunar verði innlegg í þá umræðu sem fer fram hjá Fjórðungssambandi Vestfjarða, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Háskólasetri Vestfjarða og Teiknistofunni Eik þessa dagana við að kortleggja nýtingu sjávar og strandar á Vestfjörðum. Sendir voru út 84 listar á ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum og bárust einungis 16 listar til baka.  Til þess að svörin verði sem markverðust teljum við okkur þurfa minnst 30 svör.

 

Nú langar okkur að biðja þig, kæri ferðaþjónustuaðili, ef þú hefur ekki fengið spurningalista eða fengið og ekki sent hann, þá langar okkur til að biðja þig um að fylla hann út og senda hann til okkar hjá Rannsókna- og fræðasetri H.í. á Vestfjörðum í Bolungarvík. Hér meðfylgjandi er spurningalisti sem bæði er hægt að fylla út í tölvu og senda til baka í netpósti eða prenta út og senda í venjulegum pósti.