Myndir frá aðalfundi og stefnumótunarfundi

Sævar Pálsson, Björn Samúelsson og Áslaug Alfreðsdóttir gáfu ekki kost á sér til stjórnarsetu. Þau taka þarna við þökkum fyrir gott starf innan samtakanna.
Sævar Pálsson, Björn Samúelsson og Áslaug Alfreðsdóttir gáfu ekki kost á sér til stjórnarsetu. Þau taka þarna við þökkum fyrir gott starf innan samtakanna.
Ferðamálasamtök Vestfjarða stóðu fyrir mikilli fundarhelgi á Hótel Núpi dagana 16.-18. apríl. Stefnumótunarvinna samtakanna var kynnt á fjölmennum fundi á föstudagskvöldi þar sem Ásgerður Þorleifsdóttir kynnti niðurstöður stefnumótunarfunda vetrarins. Stefnumótunarskýrslan verður gefin út innan skamms og dreift til allra ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum. Aðalfundur samtakanna var haldinn á laugardagsmorgun. Hann var einnig vel sóttur en 40 manns sátu hann. Fréttaritari strandir.is sat fundinn og birtir myndir á fréttamiðlinum. Þær er hægt að nálgast hér. Ráðstefnan Umhverfisvottaðir Vestfirðir var haldin í framhaldi af aðalfundinum. Um 100 manns sóttu ráðstefnuna sem var afar fróðleg og skemmtileg.
Nokkur breyting var á stjórn samtakanna. Þrír fyrrum stjórnarmenn gáfu ekki kost á sér, þau Áslaug Alfreðsdóttir, Sævar Pálsson og Björn Samúelsson. Í þeirra stað komu í stjórn Halldóra Játvarðardóttir, Ragna Magnúsdóttir og Einar Unnsteinsson. Stjórnarmenn eru kosnir fyrir tvö ár í senn og formaður fyrir eitt ár. Sigurður Atlason gaf kost á sér aftur og var kjörinn sem formaður samtakanna. Stjórn Ferðamálasamtakanna sitja eftirfarandi einstaklingar:

Sigurður Atlason, Hólmavík, formaður
Ester Unnsteinsdóttir, Súðavík
Einar Unnsteinsson, Bjarnarfirði
Halldóra Játvarðardóttir, Miðjanesi
Keran Stueland, Breiðavík
Ragna Jóhanna Magnúsdóttir, Bolungarvík
Sigurður Arnfjörð, Núpi Dýrafirði

Aðalfundur Ferðamálasamtaka um næstu helgi

Um næstu helgi verður aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða haldinn á Hótel Núpi í Dýrafirði. Dagskráin hefst á föstudagskvöld þann 16. apríl kl. 20:00 þar sem vinna við stefnumótun Vestfirskrar ferðaþjónustu verður kynnt. Vel yfir 100 manns tóku þátt í vinnunni í vetur. Á þeim fundi verður hægt að koma með athugasemdir og koma með tillögur til breytinga. Stefnumótunin verður síðan gefin út vikuna á eftir. Það ættu allir ferðaþjónustuaðilar að stefna að því að koma sínum hugðarefnum að í skýrslunni.
 
Aðalfundurinn sjálfur verður haldinn á laugardagsmorgun kl. 9:00. Aðalfundurinn verður hefðbundinn þar sem farið verður yfir venjuleg aðalfundarstörf. Stefnt er að því að honum verði lokið kl. 10:30.

Ráðstefnan Umhverfisvottaðir Vestfirði hefst kl. 11:00. Þar verða haldin fjölbreytt erindi. Rætt verður um stöðu umhverfismála á Íslandi og hvaða aðgerða sé hægt að grípa til, auk þess sem þessi mál verða sett í hnattrænt samhengi. Fjallað verður um almennt viðhorf til náttúrunnar og sagðar reynslusögur af vottun einstakra fyrirtækja, með áherslu á mikilvægi vottunar fyrir markaðsstarf og daglegan rekstur. Þar flytja erindi fræðimenn og sérfræðingar sem hafa látið umhverfismál til sín taka og munu miðla ráðstefnugestum af mikilli reynslu sinni á því sviði.
Lok ráðstefnunnar verða um kl. 17:00 og þá verður farið í skoðunarferð í Skrúð. Um kvöldið verður síðan skemmtun á hótelinu. Dagskrá ráðstefnunnar er að finna hér.
 
Það eru allir ferðaþjónustuaðilar og aðrir þeir sem hafa áhuga á vestfirsku samfélagi á Vestfjörðum hvattir til að taka þátt í þessari aðalfundarhelgi Ferðamálasamtakanna.
 
Fundargestir eru jafnframt hvattir til að hafa samband við Hótel Núp og gera viðeigandi ráðstafanir með mat og gistingu ef á þarf að halda. Allar upplýsingar er að finna á heimasíðu Hótel Núps á www.hotelnupur.is.

Þjónustukort MV 2010

Nú er komið af því að Markaðsstofan gefi út sitt árlega þjónustukort fyrir sumarið 2010.

Á tenglinum hér að neðan hægt að sjá kortið með upplýsingum um fyrirtæki í ferðaþjónustu á Vestjförðum. Þessar upplýsingar eru fengnar úr gagnagrunni Ferðamálastofu eins og hann kemur fram á www.ferdalag.is.
http://vestfirskferdamal.is/skraarsafn/skra/54/

Mikilvægt er að hver og einn ferðaþjónustuaðili yfirfari sína skráningu og komi með athugasemdir ef þess þarf. Athugasemdum má koma á framfæri við Upplýsingamiðstöðina á Ísafirði í info@westfjords.is eða hjá Markaðsstofunni í jonpall@westfjords.is

Á kortinu eru jafnframt auglýsingar. Hægt er að kaupa auglýsingu í þessa kassa á kr.20.000.-. Fyrstir koma fyrstir fá. Panta þarf pláss með því að senda póst á jonpall@westfjords.is

Umhverfisvottaðir Vestfirðir – Ráðstefna á Núpi 17. apríl

Ráðstefnan verður haldinn þann 17. apríl.
Ráðstefnan verður haldinn þann 17. apríl.
Fréttatilkynning

 

Ferðamálasamtök Vestfjarða standa fyrir metnaðarfullri ráðstefnu undir yfirskriftinni Umhverfisvottaðir Vestfirðir laugardaginn 17. apríl n.k. Ráðstefnan verður haldin í tengslum við aðalfund samtakanna á Hótel Núpi í Dýrafirði og hefst kl. 11:00. Ráðstefnan er öllum opin, en meðal framsögumanna verður Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

 

Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa unnið að stefnumótun vestfirskrar ferðaþjónustu undanfarna mánuði og haldið fundi um allan fjórðunginn. Mjög mikil þátttaka var á fundunum, en vel yfir 100 manns tóku þátt í umræðum um framtíð vestfirskrar ferðaþjónustu og þar með samfélagsins á Vestfjörðum. Á fundunum kom fram að umhverfismál brenna sérstaklega á Vestfirðingum og skýr krafa var uppi um að tekin yrði umræða um hvers kyns umhverfismál sem varða fjórðunginn.

 

Í beinu framhaldi af stefnumótunarfundunum ákvað stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða að hefja strax undirbúning ráðstefnu um kosti þess að stefna að umhverfisvottun Vestfjarða. Tekið var upp samstarf við Náttúrustofu Vesturlands í Stykkishólmi við undirbúning ráðstefnunnar, en starfsmenn stofunnar hafa lagt fram tillögur um að Ísland verði fyrsta umhverfisvottaða landið í heiminum. Verkefnið er þegar komið vel af stað á Snæfellsnesi.

 

Á ráðstefnunni Umhverfisvottaðir Vestfirðir verða haldin fjölbreytt erindi. Rætt verður um stöðu umhverfismála á Íslandi og hvaða aðgerða sé hægt að grípa til, auk þess sem þessi mál verða sett í hnattrænt samhengi. Fjallað verður um almennt viðhorf til náttúrunnar og sagðar reynslusögur af vottun einstakra fyrirtækja, með áherslu á mikilvægi vottunar fyrir markaðsstarf og daglegan rekstur. Loks verður sagt frá sérstökum verkefnum, svo sem hugmyndum um rafbílavæðingu Íslands.

 

Á ráðstefnunni munu fulltrúar Náttúrustofu Vesturlands fjalla sérstaklega um hugmyndafræðina á bak við verkefnið Umhverfisvottað Ísland. Meðal fyrirlesara verður einnig Leo Christensen, atvinnumálafulltrúi Lolland kommune í Danmörku. Leo mun segja frá þeim aðgerðum sem stjórnvöld á Lálandi gripu til fyrir rúmum áratug þegar ástand í atvinnumálum þar var orðið nánast óbærilegt og þeim jákvæðu áhrifum sem þessi nýja stefna hefur haft fyrir íbúa og atvinnulíf eyjarinnar. Þá er ótalinn fjöldi annarra fræðimanna og sérfræðinga sem hafa látið umhverfismál til sín taka og munu miðla ráðstefnugestum af mikilli reynslu sinni á því sviði.

 

Ferðamálasamtök Vestfjarða stefna að því að fylgja ráðstefnunni eftir í samvinnu við Fjórðungssamband Vestfirðinga. Markmiðið er að umhverfisvottun Vestfjarða komist á dagskrá Fjórðungssambandsins og að vestfirsk sveitarfélög sameinist um að stefna að slíkri vottun.

 

Ráðstefnan á Núpi er öllum opin sem fyrr segir. Ekki verður rukkað þátttökugjald, en ráðstefnugestum er bent á að hafa samband við Hótel Núp til að panta sér mat og gistingu ef á þarf að halda. Dagskrá ráðstefnunnar er aðgengileg hér.


Vestfirðir 2010. Skilafrestur á efni fyrir lok mars.

Forsíða Ferðablaðsins Vestfirðir 2009
Forsíða Ferðablaðsins Vestfirðir 2009
Vinnsla á ferðablaðinu Vestfirðir 2010 er komin á fullan skrið. Blaðið, sem nú kemur út 16. sumarið í röð, mun áfram birta góðar upplýsingar og staðarlýsingar fyrir ferðafólk á leið um Vestfirði, frásagnir fólks sem hefur ferðast um Vestfjarðakjálkann og hrifist af svæðinu ásamt fjölda fallegra mynda. Í blaðinu verður einnig að finna ábendingar um áhugaverða viðkomustaði í fjórðungnum og viðburði sem vert er að sækja. Líkt og fyrr mun blaðið liggja frammi á yfir 200 stöðum á landinu, þ.e. upplýsingamiðstöðvum og áningarstöðum ferðafólks. Þeim sem vilja koma á framfæri upplýsingum í blaðið um starfið í sumar er vinsamlegast bent á að hafa samband við Hlyn Þór Magnússon í síma 892 2240 eða 434 7735 eða í netfanginu hlynur@bb.is. Skilafrestur efnis er fyrir lok mars. Þá þarf að panta auglýsingapláss tímanlega eða í síðasta lagi 31. mars (miðvikudag fyrir páska) hjá Halldóri Sveinbjörnssyni í síma 894 6125 eða 456 4560 eða í netfanginu halldor@bb.is. Stefnt er að útgáfu í byrjun maí.