Málþingið "Ferðamál til framtíðar í Vesturbyggð" er haldið 22.nóvember

Frá höfninni á Bíldudal
Frá höfninni á Bíldudal
Þann 22.nóvember nk. verður haldið málþingið "Ferðamál til framtíðar í Vesturbyggð".

Málþingið er öllum opið og eru þeir sem hafa áhuga á ferðaþjónustu á svæðinu hvattir til að mæta og taka þátt í störfum þingsins. Málþingið fer fram í Félagsheimilinu á Bíldudal laugardaginn 22. nóvember og hefst kl. 09.45. Dagskráin er hægt að sjá hér.

Málþingið er öllum opið. Allir þeir sem hafa áhuga á ferðaþjónustu á svæðinu eru hvattir til að mæta og taka þátt í störfum þingsins.

Nánari upplýsingar má finna á www.vesturbyggd.is og hjá atvest í Skor, þekkingarsetri á Patreksfirði í síma 490 2301 eða í netfanginu magnus@vesturbyggd.is


mbk, jonpall

Vefnám frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands - Þjónustugæði í ferðaþjónustu

Skjámynd af myndskeiði úr námskeiðinu
Skjámynd af myndskeiði úr námskeiðinu
Á vef NMI - Nýsköpunarmiðstöð Íslands er að finna nýtt nám í þjónustugæðum fyrir ferðaþjónustufyrirtæki. Námskeiðið fer fram með því að horfa á myndskeið af heimasíðu námskeiðsins. Myndskeiðin eru vel fram sett á einföldu og skýru máli og mæli ég með því fyrir alla, jafnt þá sem hafa mikla reynslu sem þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í að skipuleggja þjónustu.

Heimasíða námskeiðsins er hér.

Það kemur m.a. fram... "Að ýmsu þarf að huga þegar grunnur er lagður að rekstri fyrirtækja og eitt af því allra mikilvægasta eru þjónustugæði. Vefnám Impru í þjónustugæðum í ferðaþjónustu fjallar um grundvallaratriði þjónustugæða á hnitmiðaðan og aðgengilegan hátt. Um er að ræða tvær útgáfur af vefnáminu, annars vegar fyrir stofnendur eða framkvæmdastjóra fyrirtækjanna og hins vegar starfsmenn þeirra."


Efnishöfundar: Guðrún Sverrisdóttir þjónusturáðgjafi og K. Brynja Sigurðardóttir verkefnisstjóri Impru á Nýsköpunarmiðstöð.


Verkefnisstjóri vefnáms: K. Brynja Sigurðardóttir.

Fyrirspurnir og nánari ráðgjöf: brynjasig@nmi.is og arnheidurj@nmi.is.





Frá afmælisráðstefnu SAF -Markaðssetning á Bandaríkjamarkaði

Ráðstefna SAF var haldin þ. 6. nóvember sl. í tilefni af 10 ára afmæli SAF og sóttu um 130 manns hana. Góður rómur var gerður að erindum ráðstefnunnar en Dr. Auliana Poon, framkvæmdastóri Tourism Intelligence International, var með fyrsta erindi ráðstefnunnar. Hún talaði um ferðahegðun Bandaríkjamanna og hvernig  breytingar hafa orðið þar á í tímanna rás frá því að vera magnbundin í það að hver og einn sníður sína ferð að eigin þörfum.  Einnig talaði hún um að bandarískir ferðamenn sæktu nú á tímum  í stuttar en innihaldsríkar ferðir sem tengjast meira náttúru og menningu. Dr. Auliana talaði um að árið 2007 hefðu Bandaríkjamenn farið í  64 milljónir ferða  erlendis en að aðeins lítil prósenta Bandaríkjamanna ferðist að jafnaði erlendis þar sem tími ferðalaga er oft mjög langur. Hún talaði einnig um að bókanir færu fyrst og fremst í gegnum internet en síminn væri einnig mikið notaður.  Þá fjallaði Dr. Auliana um þann hóp fólks sem tekið hefur við af "hippum" og "uppum" sjöunda og áttunda áratugarins sem nefnist "bobos" en í þeim hópi er vel efnað fólk sem lætur sér annt um náttúruauðæfi jarðarinnar, vill borða mat sem er beint frá bónda og vill eiga félagsleg samskipti við fólk af sama toga. Að lokum gaf Dr. Auliana Íslendingum þau ráð að mikilvægt væri að bjóða "ekta vöru"  og kynna hana á þeim mörkuðum sem sótt er á.


Næst flutti Helgi Már Björgvinsson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair erindi um Bandaríkjamarkað. Í máli Helga kom fram að Icelandair hefur sett meginþorra auglýsingafjármagns síns á erlendan markað og að Ísland væri svokallaður syllu markaður Icelandair í Bandaríkjunum. Helgi var sammála Dr. Poon um að ferðahegðun Bandaríkjamanna sé að breytast og að ferðir séu meira sniðnar að eigin högum en engu að síður væri alltaf ákveðinn hópur sem velur tilbúnar pakkaferðir. Í máli Helga koma fram að mikil tækifæri geta myndast við aðstæður eins og nú eru á markaði og hægt sé að fjölga ferðamönnum frá Bandaríkjunum talsvert þar sem þeir eru í dag aðeins um 11% heildarfjölda erlendra ferðamanna sem sækja Ísland heim. Einnig sagði Helgi að bókanir með Icelandair frá Bandaríkjunum hefðu tvöfaldast á milli ára það sem af er nóvember og þakkaði hann það auknu markaðsstarfi.  Að lokum sagði Helgi að þrátt fyrir þá lægð sem íslenska krónan væri í mætti ekki markaðsetja landið sem ódýrt heldur frekar koma auga á þau tækifæri sem felast í þessari tímabundnu sveiflu.   Sjá erindi Helga Más hér.

Ferðakort Markaðsstofu 2009

Eins og áður hefur komið fram á þessum vef er í undirbúningi endurnýjun á ferðakorti markaðsstofu Vestfjarða fyrir 2009.

Kortið vakti mikla lukka á síðasta sumri og var mikið notað af ferðamönnum bæði meðal þeirra sem þegar voru að ferðast um Vestfirði og af þeim sem voru að leita sér að upplýsingum um Vestfirði áður en lagt var af stað í ferðalagið.

Réttar upplýsingar eru því lykilatriði til að kortið nýtist viðskiptavinum okkar í ferðaþjónustunni. Þessa daganna er upplýsingamiðstöðin á Vestfjörðum að fylgja eftir skráningum í gagnagrunn ferðamálastofu, sem er grunnurinn að þeim gögnum sem notaður er í kortið. Ég vill hvetja alla ferðaþjónustuaðila til að skoða sína skráningu og hafa samband við Heimi, forstöðumann landshlutamiðstöðvarinnar á Ísafirði, í 450 8060 eða info@vestfirdir.is

Til gamans fylgir hér með bréf sem upplýsingamiðstöðinn fékk eftir að þýsk ferðaskrifstofa fékk kortið í hendurnar.

Dear Heimir!

 

I've got your maps about the vestfjords/vestisland they are absolutely awesome!

 

Well could you send us some maps like these for the nordwest/island specially about reykavic and the area around? - we will visit kevlavik/reykjavik, laugarvatn/pingvallavatn, hvalfjördur/borgafjördur, myar area and stykkisholmur should be on the map.

 

If this maps are like the vestfjord maps it would be so awesome!

 

We need about 20 pieces.

 

Thank you so much! J

 

Wish you a nice week!

Yours faithfully,

 

Julia Pfister

 

birdingtours GmbH

Matattengd ferðaþjónusta er vaxtabroddur til framtíðar

Vöfflur á Hrafnseyri við Arnarfjörð
Vöfflur á Hrafnseyri við Arnarfjörð

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur verið að vinna að og móta verkefni er varðar matartengda ferðaþjónustu. Markmið með þeirri vinnu er að efla samstarf innan svæðis er varðar staðbundna matvælaframleiðslu og leiða saman aðila frá veitingahúsum, verslunum, ferðaþjónustu og matvælaframleiðendur í þeim tilgangi að vinna saman að vöruþróun, sameiginlegri markaðssetningu og ýmislegt fleira. Það er alveg ljóst að möguleikarnir eru miklir og ýmis tækifæri vannýtt t.a.m. hvað varðar matvælaframleiðslu á Vestfjörðum.

Nú leitum við af aðilum í þessum greinum sem vilja koma að undirbúningi og þróun með okkur að verkefninu. Það er mikilvægt að bæði reynslumiklir og áhugasamir aðilar komi að þróuninni í upphafi og hafi þar með áhrif á verkefnið og vinnuna sem framundan er. Verkefnið mun svo vera opið öllum til þátttöku þegar undirbúningsferli er lokið.

Markmið verkefnisins eru m.a.:

- Byggja á sérstöðu svæðisins til að skapa virðisauka

- Efla samstarf innan og utan svæðis

- Gera vestfirsk matvæli sýnileg

- Nýjungar í framreiðslu

- Safna og vernda vinnuaðferðir og hefðir

- Auka gæðaímynd

- Hvetja veitingastaði til að nota staðbundið hráefni

 

Fyrirtæki eru hvött til að hafa samband við starfsmenn Atvest á Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði til að kynnast verkefninu og skrá sig til þátttöku í undirbúningshóp.

Starfsmenn Atvest

Ásgerður Ísafirði, sími 450 3053,

Viktoría Hólmavík, sími 451 0077

Guðrún Patreksfirði, sími 490 2350