Námskeið um verðlagningu útflutningsvöru og þjónustu 5.nóv

Námskeið á vegum Útflutningsráðs um verðlagningu útflutningsvöru og þjónustu í samvinnu við KPMG og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða verður haldið í Háskólasetrinu á Ísafirði, stofu 1, Miðvikudaginn 5. nóv. n.k frá kl 13-17.  Námskeiðið mun fara fram í gegnum vefbúnað á sama tíma í Þekkingarsetrinu Skor á Patreksfirði og Grunnskólanum á Hólmavík.

Á  námskeiðinu verður fjallað um áhrif mismunandi aðferða á áætlaðan rekstrar- og efnahagsreikning. Lögð verður áhersla á að öll umfjöllun sé einföld og aðgengileg og mun allt efni og framsetning þess byggja á því að þátttakendur hafi fjölþættan bakgrunn og mismikla þekkingu á bókhaldi, rekstraráætlunum og ársreikningum. Að loknu námskeiði ættu þátttakendur að vera betur undir það búnir að leggja raunsætt mat á hugmyndir sínar um verðlagningu og uppbyggingu þjónustuframboðs, hvað er hagkvæmt og hvað hlutirnir þurfa að kosta. Ferðaþjónustuaðilar eru sérstaklega hvattir til að nýta sér námskeiðið.


Auglýsingu um námskeiðið má sjá hér.
 

Námskeiðið er styrkt af Vaxtarsamningi Vestfjarða og er aðgangur ókeypis.

 

Skráning og allar nánari upplýsingar gefur Ásgerður Þorleifsdóttir hjá Atvest í síma 450 3053 eða á netfangið asgerdur@atvest.is

Nýjar Vestfjarðaljósmyndir frá Markaðsstofunni

Dynjandi
Dynjandi
Í sumar fjárfesti Markaðsstofa Vestfjarða í ungum og upprennandi ljósmyndara á Ísafirði, Ágústi G. Atlasyni. Ágúst fór vítt og breitt um Vestfirði og tók myndir samkvæmt "handriti" forstöðumanns Markaðsstofunnar.

Úrvinnsla myndana hefur ferið fram í haust og nú afraksturinn sýnilegur á vef Ágústs www.gusti.is/ljosmyndir/vestfirdir_2008/

Ágúst var samningsbundin Markaðsstofunni í þessu verkefni og munu ljósmyndirnar nýtast henni við gerð kynningarefnis fyrir Vestfirði og er gott ljósmyndasafn lykillinn að árangrusríkri framsetningu á efni frá Vestfjörðum.

mbk,
jonpall

Verðlagning hjá ferðaþjónustuaðilum á Vestfjörðum fyrir 2009

Frá Breiðavík
Frá Breiðavík

Nýverið stóð Markaðsstofa Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða fyrir rannsókn meðal ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum. Tilgangurinn var að kanna viðhorf til verðlagningar á þjónustu ferðaþjónustufyrirtækja fyrir næsta ár.

Rannsóknin fór fram með því að hringja í ferðaþjónustufyrirtæki og spyrja nokkurra spurninga um verðlagningu þeirra. Gengið var út með:

Markmið: Veita ferðaþjónustuaðilum upplýsingar um hvað er framundan í verðlagningu á þjónustu.

Spurning: Hvað gerir þú ráð fyrir miklum hækkunum á þinni þjónustu fyrir næsta ár.

 

Niðurstöður þessarar könnunar eru í stuttu máli að mat rannsakenda er að ferðaþjónustuaðilar munu almennt hækka verð á gistingu og annarri þjónustu (mat) um 12-15% fyrir næsta ár og hallast fleiri að 15% hækkun. Flestir gefa upp verð í Íslenskum krónum. Einhverjir hafa hugsað um að gefa verð upp í Evrum, en það virðist ekki vera algengt.

 

Þessi til viðbótar var haft samband við ferðaskrifstofur um hver væri þeirra hugur varðandi verðlagningu fyrir næsta ár. Niðurstaða úr þeim viðtölum er að verð hækkaði frá ferðaþjónustufyrirtækjum um allt land um 7-12% í haust. Undanfarið væri hinsvegar miklu meiri pressa um að hækka þessi verð enn frekar, sem styður niðurstöðuna um 15% hækkun.

 

Það er ljóst að ferðaþjónustuaðilar um allt land munu hækka verð fyrir næsta sumar, enda eru kostnaðarhækkanir framundan. Nokkur óvissa er um hversu miklar hækkanir verða á aðföngum, enda litlar upplýsingar í boði á þessari stundu.

 

Upplýsingar sem eru í boði núna og hafa áhrif á kostnað ferðaþjónustufyrirtækja eru:

  • Raforkusala á Vestfjörðum hækkað um 6%
  • Launavísitala hefur hækkað um 9,11% frá því á sama tíma og í fyrra, þetta er meðaltal en í iðnaði var meðalhækkun 5,9% og 4,4% í verslun.
  • Meðalvextir hækkað um 12%
  • Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 13,5% sem gefur vísbendingu um hækkun matvæla en þó er ýmislegt þarna inni sem ætti ekki að taka mið af við verðlagningu hjá ferðaþjónustunni.
  • Spá Glitnis varðandi verðbólgu næstu 12 mánuði er 15,8% verðbólga, þetta er þó með fyrirvara um þær ákvarðanir sem teknar verða hjá ríkisstjórninni.

 

Þessar tölur eru einungis til viðmiðunar og geta breyst (og hafa örugglega breyst síðan þetta var tekið saman).


Nánari upplýsingar um rannsóknina er hægt að nálgast hjá Markaðsstofu Vestfjarða eða AtVest.

mbk,

Jón Páll

Nýjar skýrslur um ferðamál frá Rannsóknarstofnun ferðamála og Ferðamálastofu

Forsíða
Forsíða "Svæðisbundin Markaðssetning" skýrslunnar
Í haust komu út tvær nýjar skýrslur um ferðaþjónustu á landsbyggðinni sem eru afar áhugaverðar.

Svæðisbundin markaðssetning, aðferðir og leiðir var unnin af Rannsóknarmiðstöð Ferðamála á Akureyri fjallar um áhrif svæðisbundinar kynningar á Íslandi og tillögur í þeim efnum. Upphaflega hugmyndin og frumkvæðið af þessarri skýrslu kom frá Markaðsstofu Vestfjarða og sat undirritaður í vinnuhópi sem skilgreindi upphaflegu rannsóknaráætlunina.

Í inngangi skýrslunar segir m.a. "Í þessari skýrslu er markmiðið að skoða hvernig svæðisbundnu markaðsstarfi er háttað og hvernig stilla megi betur saman strengi allra þeirra ólíku þátta sem falla undir ferðaþjónustu á einu svæði. Þessa samþættingu þarf að reyna án þess að fórna eða einfalda um of þá vöru sem í boði er, sem er landið sjálft, menning þess og saga (Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, 2005: 30). Þær rannsóknarspurningar sem hér verður leitast við að svara eru:

* Hvernig er hlutverki, starfsemi og uppbyggingu markaðsstofa um landið háttað?
* Hverjir koma að mótun svæðisbundinnar markaðssetningar og með hvaða hætti?

 

skýrsluna í heildi sinni er að finna hér.

 

Tillögur nefndar iðnaðarráðherra um aðkomu ríkisins að skipulagi og fjármögnun í ferðaþjónustu var gefinn út í sumar og er hún afrakstur mikillar vinnu forustuaðila í íslenskri ferðaþjónustu.


Þar er að finna athyglisrverðar niðurstöður og get ég ekki staðist freistingu að láta þennan texta úr skýrslunni fylgja með.

 

"Svæðistengd aðkoma hins opinbera að uppbyggingu ferðaþjónustu

í landinu hefur ekki verið nægilega markviss og sér þessa m.a.

stað í tilviljanakenndri uppbyggingu og ótryggum rekstri markaðsstofa

og upplýsingamiðstöðva víða um land.


Nefndin leggur til að úr þessu verði bætt og rík áhersla verði lögð á

að byggja upp net landshlutastofa með skýrt skilgreindum samningum

til fjögurra ára í senn. Lagt er til að landinu verði skipt upp

í svæði á grunni sameiginlegra, svæðisbundinna hagsmuna og að

aðkoma hins opinbera sé m.a. skilyrt við afgerandi aðkomu sveitarfélaga,

ferðaþjónustufyrirtækja og allra annarra hagsmunaaðila

innan hvers svæðis."


Skýrsluna í heild er hægt að nálgast hér.

 

Námskeið í gerð styrkumsókna - er nú ÓKEYPIS

Fræðslumiðstöð Vestfjarða hefur ákveðið í samráði við kennara námskeiðsins að fella niður þátttökugjöld af námskeiðinu "STYKUMSÓKNIR"

Markmið námskeiðsins er að gera þátttakendur hæfari í að skrifa styrkumsóknir og auka þekkingu þeirra á þeim sjóðum sem hægt er að sækja styrki til. Farið verður í gegnum hvernig á að skrifa umsóknir og hvað einkennir góðar styrkumsóknir. Gert er grein fyrir hvernig umsóknir eru metnar í meginþáttum af þeim sem lesa, meta og ákvarða hverjir hljóta styrki. Umsóknarferlinu og umsóknarvinnunni má skipta niður í hluta og verður fjallað um hvernig ná má sem bestum árangri í hverjum hluta. Þá verður fjallað um helstu sjóði sem í boði eru á Íslandi og erlendis (norrænir og evrópuverkefni) og mismunandi áherslur milli þeirra. Loks verður umfjöllun um áfangaskýrslur og lokaskýrslur. 

Nánari upplýsingar og skráning er að finna á hér.