Dagskrá aðalfundarhelgar FMSV 20. apríl 2013

Næstkomandi helgi verður aðalfundarhelgi FMSV. Dagskráin hefst í Félagsheimilinu Árnesi á föstudagskvöld kl. 20:00 þar sem verður kynning á ferðaþjónustu í Árneshreppi. Boðið verður upp á léttan kvöldverð frá kl. 19:00 í félagshemilinu en mötuneyti helgarinnar verður einnig þar til húsa. Aðalfundur Vesturferða verður kl. 10:00 á laugardagsmorgun og aðalfundur FMSV kl. 13:00.

Seinnipart laugardags verður farin hópferð um sveitina með heimamönnum.

Þeir sem ætla að mæta á dagskrána skulu bóka sig í gistingu á einhverjum eftirtöldum stöðum.
Gistihemilið Bergistanga Norðurfirði – S: 451 4003
Urðartindi Norðurfirði – S: 843 8110
tel Djúpavík - 451 4037

Í mötuneytinu verður boðið upp á:
Kvöldverð föstudagskvöld – kr. 2.500
Morgunverð – kr. 1.200 pr. stk.
Hátíðarkvöldverð laugardagskvöld – kr. 5.500
Skráning í mat skal fara fram fyrir fimmtudaginn 18. apríl á netfangið vestfirdir@gmail.com eða síma 897 6525.


FMSV munu bjóða upp á aðra hressingu að venju á laugardeginum.

Veðurspáin lofar góðu og okkur hlakkar til að hitta ykkur sem flest í hinum fagra Árneshreppi um helgina.

Meðfylgjandi er kort af Árneshreppi með helstu staðsetningum.
Munið eftir sundfötunum!

Aðalfundur FMSV 2013 verður þann 20. apríl í Trékyllisvík

Frá Norðurfirði
Frá Norðurfirði

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða verður haldinn á Félagsheimilinu Árnes í Trékyllisvík laugardaginn 20. apríl n.k. kl. 13:00

Að venju verður lítil dagskrá um ferðamál um kvöldið þar sem sjónum verður beint sérstaklega að Árneshreppi. Sigurður Atlason mun ekki gefa kost á sér til formennsku áfram og því er ljóst að nýr formaður FMSV mun taka við á aðalfundinum. Ferðaþjónustufólk á Vestfjörðum er því hvatt til að velta fyrir sér nýjum formanni úr sínum röðum. Þrír aðrir stjórnarmenn munu einnig ganga úr stjórn samkvæmt lögum félagsins.


Stjórn samtakanna skal kosin árlega á aðalfundi, sem halda skal fyrri hluta árs þannig að árlega eru kosnir þrír menn til tveggja ára , en í stjórn sitja sex menn auk formanns, sem kjósa skal sérstaklega á hverjum aðalfundi til árs í senn. Leitast skal við að kjósa fulltrúa sem flestra svæða í stjórn. Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara.

Lög FMSV
http://www.vestfirskferdamal.is/fsamtokin/

Greiðsluseðlar vegna árgjalda verða sendir út fimmtudaginn 11. apríl eða föstudaginn 12. apríl. Þeir sem greiða árgjald fyrir aðalfund teljast fullgildir félagar og öðlast atkvæðisrétt.


Með góðri kveðju,

Fyrir hönd stjórnar FMSV

Sigurður Atlason
formaður

Sérsniðið námskeið fyrir ferðaþjónustuaðila

Opni háskólinn í HR býður upp á hagnýtt og spennandi námskeið fyrir fyrirtæki og aðila úr ferðaþjónustunni.
Samningatækni í ferðþjónustu

Á námskeiðinu verður fjallað um hvernig nýta má samningatækni til að til að ná hagstæðri niðurstöðu í samningaviðræðum við viðskiptavini og þjónustuaðila og skapa traust fyrir langtíma viðskiptasambönd í ferðaþjónustu. Sérstaklega verður greint frá því hvernig hagnýta megi rannsóknir á menningarmun í uppbyggingu viðskiptasambanda við fólk frá mismunandi menningarsvæðum og jafnframt hvað beri að varast.  Fjallað verður um hvernig má auka hæfni í lausn á ágreiningi og hvernig snúa megi átökum í árangursríkt samstarf.  Þátttakendur takast á við hagnýtar æfingar í samningatækni sem kristalla þær grundvallaráskoranir sem samningamenn standa frammi fyrir svo þeir megi njóta aukins sjálfstrausts í samningaviðræðum og geti stjórnað gangi viðræðna og beint þeim til hagstæðrar niðurstöðu.

Nánari upplýsingar og skráning

Westfjords Official Tourist Guide

Gleðilegt ár ágætu ferðaþjónar

Eins og þið eflaust munið þá var sendur út póstur í desember vegna bæklingsins “Westfjords of Iceland. The Official Tourist Guide” fyrir árið 2013. Þar var fólk beðið um að skoða upplýsingar um fyrirtæki sín, sem birtust í bæklingnum fyrir síðastliðið sumar og leiðrétta eða uppfæra eftir þörfum.  Frestur til slíkra breytinga var gefinn til 4. janúar, en nú hefur verið ákveðið að framlengja hann örlítið, enda hafa margir væntanlega haft í önnur horn að líta í fannferginu og rafmagnsleysinu. Við biðjum því þá sem vilja breyta upplýsingum um fyrirtæki sín að gera það eigi síðar en næstkomandi föstudag, 11. janúar. Öllum breytingum á að skila til skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri (upplysingar@icetourist.is, sími 535-5510), en þar er haldið utanum gagnagrunn ferðaþjónustunnar í landinu. Við fáum svo upplýsingar úr þeim gagnagrunni til að nota í bæklinginn. Það er sérstaklega mikilvægt að þau fyrirtæki sem bjóða upp á margs konar þjónustu passi uppá að vera skráð í alla þá þjónustuflokka sem við eiga. Þessir þjónustuflokkar eru býsna margir, ekki síst í því sem flokkast undir afþreyingu.

 

Eins og fyrr greinir á að senda allar leiðréttingar og uppfærslur beint til Akureyrar, en ef fólk þarf aðstoð eða nánari upplýsingar er velkomið að hafa samband við upplýsingamiðstöðina á Ísafirði (info@vestfirdir.is, sími 450-8060).

 

Þjónustubæklingur 2013 - breytingar

Ágætu ferðaþjónar

Nú er að hefjast vinna við þjónustubæklinginn (Westfjords Official Tourist Guide 2013) sem Markaðsstofa Vestfjarða hefur gefið út undanfarin ár. Eins og venjulega verða allar upplýsingar um ferðaþjóna sóttar í gagnagrunn Ferðamálastofu og því er mjög mikilvægt að allir fari yfir sínar skráningar þar og kanni hvort þær séu réttar, bæði hvað varðar grunn upplýsingar og eins þá þjónustuflokka sem fyrirtækin eru skráð í. Hægt er að skoða upplýsingarnar með því að fletta í gegnum bæklinginn fyrir árið 2012 eða að nota leitarvélina á www.westfjords.is.  

 

Við fáum svo gögnin frá Ferðamálastofu til úrvinnslu mjög snemma á nýju ári og biðjum ykkur því að ganga frá leiðréttingum og breytingum í síðasta lagi föstudaginn 4. janúar næstkomandi. Öllum slíkum leiðréttingum og breytingum á að skila til skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri í síma 535-5510 eða í netfangið upplysingar@ferdamalastofa.is.

 

Einnig væri gott að fá fréttir af nýjum eða væntanlegum ferðaþjónum á ykkar svæðum, svo hægt sé að aðstoða þá við að koma skráningarmálunum á rekspöl. Upplýsingar um slíkt má senda á info@westfjords.is.

 

Bestu kveðjur

 

Heimir Hansson

Upplýsingamiðstöð Vestfjarða.