Heydalur hlaut hvatningarverðlaun Ferðaþjónustu bænda

Ferðaþjónustan í Heydal (Mynd fengin að láni á www.heydalur.is)
Ferðaþjónustan í Heydal (Mynd fengin að láni á www.heydalur.is)

Á uppskeruhátíð Ferðaþjónustu bænda sem haldin var þann 23. nóvember s.l. veitti skrifstofa Ferðaþjónustu bænda 6 bæjum innan samtakanna sérstakar viðurkenningar og var það í fyrsta sinn sem skrifstofan veitti verðlaun sem þessi. Viðurkenningar voru veittar í tveimur flokkum, Hvatningaverðlaun Ferðaþjónustu bænda og Framúrskarandi ferðaþjónustubær 2011. Það var voru veitt þrenn verðlaun í hverjum flokki. Heydalur í Mjóafirði var eitt þriggja ferðaþjónustufyrtækja inn vébanda Ferðaþjónustu bænda sem hlutu hvatningarverðlaunin.


Í rökstuðningi fyrir viðurkenningunni um Heydal segir:

  • Þetta eru stórhugar á Vestfjörðum sem eru á góðri leið með að byggja upp hinn sannkallaða ævintýradal í Heydal, þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi allan ársins hring. Áhersla er lögð á að bjóða upp á fjölbreytta náttúrutengda afþreyingu á staðnum, s.s. gönguferðir, hestaferðir, kajakferðir og selaskoðun. Á markvissan hátt hafa þau einnig verið að vinna að lengingu ferðamannatímabilsins t.d. með því að bjóða upp á norðurljósaferðir á Vestfirðina. Þau leggja mikið upp úr samstarfsverkefnum og má þar t.d. nefna samstarf við Vatnavini varðandi hugmyndir um nýtingu á heita vatninu. Lifandi verkefni hér á ferðinni og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Ferðamálasamtök Vestfjarða vilja óska þeim Stellu og Gísla hjartanlega til hamingju með sérlega verðskuldaða viðurkenningu sem öll vestfirsk ferðaþjónusta getur ekki síður verið stolt af.

Heimasíða Ævintýradalsins í Heydal er á slóðinni www.heydalur.is.

Skýrsla starfshóps um endurskoðun stoðkerfisins á Vestfjörðum

Starfshópur um endurskoðun stoðkerfis sem skipaður var fljótlega eftir Fjórðungsþing á haustdögum hefur lagt fram skýrslu með tillögum um breytingu á stoðkerfi Vestfjarða. Hópurinn sem var skipaður fulltrúum frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Markaðsstofu Vestfjarða,  Menningarráði Vestfjarða og Vaxtarsamningi Vestfjarða hefur skilað frá sér tillögum sem verða lagðar fyrir auka fjórðungsþing þann 25. nóvember næstkomandi. Starfshópurinn klofnaði í afstöðu sinni en fulltrúi Ferðamálasamtaka Vestfjarða í stjórn Markaðsstofunnar styður tillögu sem fram kemur í eftirfarandi áliti stjórnar samtakanna.

Skýrsla starfshópsins er að finna í heild sinni á þessum tengli http://vestfirskferdamal.is/skraarsafn/skra/70/ . Ályktun FMSV er einnig að finna aftast í skýrslu starfshópsins.

 
Ályktun og tillaga stjórnar Ferðamálasamtaka Vestfjarða vegna umræðu um sameiningu stoðkerfis á Vestfjörðum.

Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða telur fram komnar tillögur starfshóps um sameiningu stoðkerfis á Vestfjörðum óásættanlegar. Stjórnin lítur þannig á að verið sé að leggja niður Markaðsstofu Vestfjarða sem starfar fyrst og fremst sem markaðsstofa ferðamála, og þar með slíta tengsl grasrótarinnar við stoðkerfið.
 
Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa mörg undanfarin ár átt góð og árangursrík samskipti við Markaðsstofu Vestfjarða og er einn af stofnaðilum stofunnar og hafa lagt fram fjármuni árlega til reksturs hennar. Á sama hátt hafa Ferðamálasamtökin átt gott samstarf við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og fleiri stofnanir í stoðgrindinni.
 
Með þessum tillögum er verið að skerða verulega möguleika Ferðamálasamtakanna til samstarfs við stoðkerfið og minnka áhrif greinarinnar við stefnumótun og ákvarðanatöku. Ferðamálasamtökin vilja gjarnan að Markaðsstofa Vestfjarða vinni í náinni samvinnu við aðrar stoðstofnanir þannig að hinn mikli mannauður innan þeirra nýtist betur til góðra verka.
 
Mikilvægt er að fagstofnun eins og Markaðsstofu Vestfjarða sé tryggð sjálfstæði og starfsöryggi eins og núverandi samþykktir kveða á um.
 
Stjórnin sér fram á að með þátttöku í fagráði, eins og fram kemur í áðurnefndum tillögum starfshóps, muni fulltrúi ferðaþjónustunnar fjalla einungis að mjög takmörkuðu leyti um málefni greinarinnar. Að auki hafi fagráð takmörkuðu hlutverki að gegna sem ráðgefandi aðili til stjórnar nýrrar stofnunnar.
 
Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða hvetur sveitarstjórnarfulltrúa að endurskoða fram komnar tillögur. Hvergi er bent á kosti sameiningar fyrir Markaðsstofu Vestfjarða í tillögunum og ekkert sem sýnir fram á að sameining allra stoðstofnana muni efla þau verkefni sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir.

Stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða leggur fram eftirfarandi tillögu:
Formlegt klasasamstarf verði myndað meðal allra stofnana undir stjórn og að frumkvæði Fjórðungssambands Vestfjarða ásamt aðkomu fulltrúa hins opinbera. Vettvangur þar sem öll helstu verkefni eru kynnt og samstarf stofnananna útfært eftir þörf. Allar stofnanir hafi sama viðmót, reynt verði eftir megni að tryggja þekkingarklasa á hverjum stað með því að starfsstöðvar verði undir sama þaki. Haldnir verði reglulegir samþættingarfundir með þátttöku starfsmanna og stjórna.

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar - Dagskrá, skráning, matseðill, hvatningarverðlaun

Víkingaskipið Vésteinn á Þingeyri verður meðal annars heimsótt á uppskeruhátíðinni
Víkingaskipið Vésteinn á Þingeyri verður meðal annars heimsótt á uppskeruhátíðinni
Um næstu helgi. laugardaginn 15. október ætlar ferðaþjónustan á Vestfjörðum að gera sér glaðan dag og halda uppskeruhátíð. Það eru allir sem starfa í ferðaþjónustu eða hafa áhuga á greininni velkomnir að taka þátt í húllumhæinu. Ferðaþjónustufyrirtæki eru hvött til að bjóða starfsfólki sínu með á hátíðina, því eins og við öll vitum þá er fátt mikilvægara en að fólk sem starfar í greininni þekkir til hvors annars á því víðfeðmna svæði sem Vestfirðir eru. Uppskeruhátíðin mun fara fram í Dýrafirði að þessu sinni og ljúka með mikilli veislu á Hótel Núpi um kvöldið þar sem einnig er gert ráð fyrir að fólk gisti. Skráning fer fram hjá Vesturferðum á netfanginu siggi@vesturferdir.is eða í síma 856 1777.
 
Í tengslum við uppskeruhátíðina hefur verið ákveðið að veita árlega sérstök hvatningarverðlaun til einstaklings eða fyrirtækis í geininni sem starfar í fjórðungnum og álitið að skarað hafi fram úr á árinu 2011 varðandi nýsköpun, þjónustu eða umhverfisstefnu. Óskað verður eftir tilnefningum frá greininni sjálfri. Í tilnefningunni þarf að koma fram nafn sendanda, hver er tilnefndur og litlum rökstuðningi sem þarf að fylla minnst tvær til þrjár setningar. Tilnefningarnar skal senda á netfang Ferðamálasamtaka Vestfjarða, vestfirdir@gmail.com merkt "Tilnefning".
 
Dagskráin er eftirfarandi:
 
Mæting að Núpi kl. 12:00 – 14:00
Ferð með rútu um hinn dýrðlega Dýrafjörð
14:30 Í Haukadal verður leiðsögn um söguslóðir Gísla sögu Súrssonar. Þórir Örn Guðmundsson
15:00 Samkomuhúsinu á Gíslastöðum. Þrjú sýnishorn úr staðbundnum leikritum Kómedíuleikhússin.
16:00 Heimsókn á Þingeyri. Skoðað verður:
Víkingaþorpið
Gistiheimilið Við Fjörðinn
Hótel Sandafell
Vélsmiðjan
Víkingaskipið Vésteinn
Simbakaffi (belgískar vöfflur)
18:00 Ekið að Hótel Núpi
20:00 Kvöldverður (Smellið hér til að sjá matseðilinn)
Tilkynnt um hvatningarverðlaun FMSV 2011
Pub Quis undir handleiðslu Sigga Atla
 
Fordrykkur og vín með matnum er í boði Vífilfells.
Hljómsveitin X-press undir handleiðslu Benna Sig, spilar fyrir dansi fram á rauðanótt.
 
Verð fyrir allan pakkan ásamt gistingu og morgunverði er kr. 13.900 pr. mann í tveggja manna herbergi.
Fyrir einn í herbergi er 3.500 kr. aukagjald.
 
Skráningu skal lokið FYRIR fimmtudaginn 13. október. Skráning fer fram hjá Vesturferðum á netfanginu siggi@vesturferdir.is eða í síma 856 1777.

Gleðilega uppskeruhátíð!

Ísland - Allt árið - og líka á Vestfjörðum

Ferðamálasamtök Vestfjarða og Vesturferðir hafa ákveðið að leggja sameiginlega 500 þús. kr. til verkefnisins Ísland – Allt árið sem kynnt hefur verið undanfarið allt í kringum landið. Samstarfsaðilar að verkefninu eru Iðnaðarráðuneytið, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar, Icelandair, Iceland Express, Reykjavíkurborg og Íslandsstofa.

Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins „Ísland – Allt árið“. Verkefnið er til þriggja ára og er þegar hafinn undirbúningur vetrarátaks sem hefst á haustmánuðum. Vestfirsk vetrarferðamennska mun njóta góðs af þessu verkefni og verða sérstaklega kynnt í gegnum heimasíðu www.inspiredbyiceland sem hlaut nýverið alþjóðlega viðurkenningu fyrir einstaklega vel heppnað markaðsátak. Í gegnum þá vefsíðu verður tengill inn á vefsíðu Markaðsstofu Vestfjarða westfjords.is/wintertours þar sem fjallað verður sérstaklega um hvað er í boði yfir veturinn á Vestfjarðakjálkanum öllum.

Samhliða er unnið innan verkefnisinsað langtíma verk- og markaðsáætlun fyrir ferðaþjónustuna.
Verkefnið hefur þann tilgang að jafna árstíðarsveiflu í komu ferðamanna og skapa þannig ný störf og auka arðsemi af greininni. Verkefnið mun byggja á þeirri fjárfestingu sem lögð hefur verið í markaðsátakið Inspired by Iceland og vinna áfram með það vörumerki. Það beinist fyrst og fremst að því að auglýsa og kynna Ísland sem áfangastað allt árið, en um leið verður leitast við að virkja almenning á Íslandi til þátttöku í verkefninu.
Einnig verður horft til úrvinnslu og niðurstaðna úr verkefninu „Vetrarferðaþjónusta“ sem verið er að vinna úr eftir sumarið 2011, af hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu auk ráðuneytis ferðamála.

Markmið verkefnisins er:
„Að styrkja ímynd Íslands sem áfangastað ferðamanna allt árið um kring“.
„Að fjölga ferðamönnum utan háannar um 100.000 frá september 2011 – september 2014 eða um 12% á ári“
„Að auka verslun erlendra ferðamanna þannig að endurgreiðsla af VSK til ferðamanna utan háannar aukist úr 560 milljónum í 800 milljónir á tímabilinu“

Með 500.000 þúsund króna framlaginu fá aðilar tengil inn á vef verkefnisins www.inspiredbyiceland.com, aðgang að árlegum fundi þátttakenda og þar með kost á að hafa áhrif á áherslur í markaðsmálum. Lógó aðilans ásamt kynningartexta sem nemur 2 línum kemst inn á vef verkefnisins og hlekk á vefsíðu í snjallsíma og spjaldtölvulausnum Inspired by Iceland auk þess sem leyfi fæst til að nota vörumerkið „Inspired by Iceland“ á öllu kynningarefni.

Þetta er þriggja ára verkefni og á næsta ári mun verða leitað eftir nánara samstarfi við öll fyrirtæki í ferðaþjónustu á Vestfjörðum við að kosta framlagið.

Vestlendingar halda heljarmikla ráðstefnu um umhverfisvottun

Eins og flestum Vestfirðingum ætti að vera kunnugt þá hafa öll sveitarfélög á Vestfjörðum ákveðið að standa sameiginlega að því að komið verði á umhverfisvottun Vestfjarða samkvæmt staðli EarthCheck. Á síðasta ári héldu Ferðamálasamtök Vestfjarða heljarmikla ráðstefnu þar sem vakin var athygli á umhverfisvottun svæðisins í heild. Nú er komið að Vesturlandi en fimmtudaginn 22. september næstkomandi standa Framkvæmdaráð Snæfellsness, Náttúrustofa Vesturlands og Borgarbyggð fyrir ráðstefnu um umhverfismál og umhverfisvottanir.
Starfsemi sveitarfélaganna á Snæfellsnesi er umhverfisvottuð samkvæmt staðli EarthCheck vottunarsamtakanna. Í fyrrahaust var samþykkt ályktun á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi um að skoða umhverfisvottun fyrir Vesturland allt með Snæfellsnes sem fyrirmynd. Tilgangur ráðstefnunnar er að fjalla um stöðu umhverfismála og kynna þessa hugmynd.
Bent verður á mikilvægi umhverfisverndar og hvað hægt sé að gera til þess að sporna gegn þeirri neikvæðu þróun sem átt hefur sér stað síðustu áratugi.
Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir!

Hægt er að skoða glæsilega dagskrá fundarins á slóðinni http://vestfirskferdamal.is/skraarsafn/skra/68/
Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig á netfangið theo@nsv.is