Aðalfundarboð - fyrst birt þann 18. mars 2011

Smellið hér fyrir dagskrána í pdf skjali.

Þar koma fram allar upplýsingar sem þörf er að vita. Allt sem varðar skráningu og dagskrá.


Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða verður haldinn laugardaginn 2. apríl n.k. og hefst kl 9:00. Aðalfundurinn verður haldinn í Skrímslasetrinu á Bíldudal.
 
Dagskrá vegna aðalfundarins hefst að venju á föstudagskvöldi. Þá verða umræður um þá vinnu sem er framundan í verkefnum sem koma fram í stefnumótunarskýrslu samtakanna. Komið verður sérstaklega inn á gæðamál ferðaþjónustunnar. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri hefur boðað komu sína á fundinn og mun fjalla um þá vinnu í gæðamálum sem farið hefur fram innan Ferðamálastofu. Þær umræður hefjast kl. 20:00. Í framhaldi af þeim verður kynning á áformum ferðamálasamtakanna um kaup á Vesturferðum. Eftir aðalfundinn á laugardagsmorgun sem hefst kl 9:00 verður kynning á Vatnavinaverkefninu. Eftir hádegi munu ferðaþjónustuaðilar á suðurfjörðum Vestfjarða kynna þá þjónustu sem er þar í boði. Farið verður í stutta kynnisferð seinnipart laugardags og endað með hátíðarkvöldverði á laugardagskvöld. Öll dagskrá fer fram í Skrímslasetrinu á Bíldudal.

Ferðaþjónustuaðilar um allan fjórðunginn eru hvattir til að taka helgina frá og taka þátt í skemmtilegru vinnu með öðrum ferðaþjónum áður en sumarvertíðin hefst af fullum krafti.
 
Greiðsluseðlar fyrir félagsgjöldum verða sendir út í næstu viku. Fullgildur félagi telst sá er sótt hefur um aðild til stjórnar og hún samþykkt og fært á félagaskrá. Þá þarf árgjald yfirstandandi árs að vera greitt. Hægt er að sækja um aðild hér á heimasíðu FMSV með því að smella hér.

Ferðamálasamtökin gera tilboð Vesturferðir

- öllum verður boðið að taka þátt og gerast hluthafar

Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa gert kauptilboð í meirihluta í ferðaskrifstofunnar Vesturferðir. Ætlunin með kaupunum er að tryggja öfluga upplýsinga- og sölugátt með skilvirkri bókunarþjónustu sem allir ferðaþjónustuaðilar í fjórðungnum hafi aðgang að. Unnið verður í nánu samstarfi við Markaðsstofu Vestfjarða og vefgáttin westfjords.is verður einnig nýtt til kynningar og sölu á vöru og þjónustu sem er í boði hverju sinni á svæði Ferðamálasamtaka Vestfjarða.

Með kaupunum mun gefast tækifæri fyrir öflugri samvinnu meðal allrar ferðaþjónustunnar með því að opna einn risastóran markað á vestfirskri ferðaþjónustu og opna sölugátt þar sem hægt verður að versla beint allar þær vörur sem eru í boði í greininni. Gisting, afþreying, ferðapakkar og hvað annað sem vestfirsk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða verði öll á einum stað og viðskiptavinir munu ekki þurfa að velkjast um hvað er í boði í fjórðungnum. Auk þess eiga viðskiptavinir að geta verslað alla þjónustu sem þeim þóknast beint frá Vestfjörðum áður en af stað er haldið. Eins og staðan er í dag þá getur verið frekar flókið að átta sig á því hvað er raunverulega í boði í fjórðungnum og skilaboð eru oft misvísandi.

Ætlunin er að mjög breið samstaða verði um eignarhald Vesturferða og félagið verði nýtt sem allsherjar bókunarmiðstöð fyrir vestfirska ferðaþjónustu. Hagnaður af bókunargjöldum félagsins mun renna til markaðssetningar alls fjórðungsins og stórauka þannig fjármagn til markaðssetningar. Öllum verður gefinn kostur á að kaupa hlut í félaginu en Ferðamálasamtökin munu strax selja stóran part af 53% hluta sínum í Vesturferðum og stefnt er að því að auka nokkuð hlutafé í félaginu. Þannig mun öllum gefast kostur á að kaupa hluti upp á 50 þús til 500 þús krónur á næstunni og verða um leið meiri áhrifaaðilar fyrir markaðssetningu fjórðungsins.

Ef af kaupunum verður er ætlunin að breyta nöfnum Vesturferða / West Tours og nota frekar heiti sem gefur skýrt til kynna á hvaða svæði á Íslandi ferðaskrifstofan starfar. Ekki er þó stefnt að því að verulegar breytingar muni eigi sér stað á rekstri Vesturferða fyrst um sinn. Það verður ekki ráðist í breytingar á rekstrinum á einni nóttu og tryggt verður að staðið verði við alla samninga sem fyrir liggja gagnvart viðskiptavinum félagsins. Framundan er mikil stefnumótunarvinna innan fyrirtækisins sem þarf að liggja fyrir á næstu vikum.

Fyrirkomulag þessarar aðferðarfræði er sótt til reynslu sveitarfélagsins Levi í Finnlandi www.levi.fi. Levi er 900 manna bær sem fær um 600.000 ferðamenn á ári, en fyrir 30 árum kom þangað varla nokkur ferðamaður. Fyrirkomulagið einkennist af samvinnu og samræmingu. Markaðsstofan þar rekur upplýsingamiðstöð, viðburðarþjónustu, bókunarþjónustu og margt fleira. Ferðaþjónar greiða fasta upphæð á ári og svo bókunargjald. Markaðsstofan í Levi hefur því til umráða 2,5 miljónir € til markaðsaðgerða en heildarframlag opinberra aðila er þar innan við 14%.

Það er nokkuð fyrirsjáanlegt að fé frá opinberum aðilum til greinarinnar muni fara minnkandi á komandi árum. Auk þess er fyrirséð að ákvörðunarréttur Markaðsstofu Vestfjarða um nýtingu þeirra fjármuna verður einnig skertur. Því er það nauðsynlegt að vestfirsk ferðaþjónusta snúi strax vörn í sókn og sæki fram í krafti samvinnu allra ferðaþjónustuaðila í fjórðungnum.

Þó það sé ekki beinlínis ætlunin að sækja fleiri hundruð þúsund ferðamanna á Vestfirði með þessari aðferð, þá er það alveg ljóst að miðað við núverandi fyrirkomulag á markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu þá eru Vestfirðir ekki að fá þann hlut sem þeir ættu að geta með betur samræmdu markaðs- og bókunarkerfi. Í dag eru Vestfirðir með 3% markaðshlutdeild í erlendum gistinóttum. Þannig hefur það verið um nokkurn tíma. Með þessari aðferð hafa Vestfirðingar betri stjórn á því hvaða skilaboð eru send til umheimsins sem varða vestfirska ferðaþjónustu.

Vestfirsk ferðaþjónusta hefur skorað hátt í könnunum undanfarið og umfjöllun áberandi miðla eins og Lonely Planet sýna það svart á hvítu að sérstaða Vestfjarða er algjör. Það hlýtur að vera undir okkur sjálfum komið að selja vörur okkar. Það er nokkuð augljóst að það kerfi sem unnið hefur verið með hefur ekki verið að virka eins og best verður á kosið. Samvinna er lykilorðið. Samvinna er það sem fyrst og fremst hefur fært ferðaþjónustuna í sveitarfélaginu Levi í Finnlandi fram á veginn svo dæmi sé tekið.

f.h. Ferðamálasamtaka Vestfjarða
Sigurður Atlason
formaður

Ef einhverjar spurningar vakna vinsamlega sendið fyrirspurnir á netfang Ferðamálasamtakanna vestfirdir@gmail.com.
Tilkynningin er einnig birt á Facebook síðu Ferðamálasamtakanna www.facebook.com/vestfirdir. Þar verður líka hægt að leggja fram hverskyns fyrirspurnir sem og hér að neðan.
 

1% For The Planet

Rúnar Óli Karlsson og Sigurður Jónsson frá Borea Adventures á Ísafirði færa Melrakkasetrinu í Súðavík styrk vegna 1% For The Planet verkefnisns
Rúnar Óli Karlsson og Sigurður Jónsson frá Borea Adventures á Ísafirði færa Melrakkasetrinu í Súðavík styrk vegna 1% For The Planet verkefnisns
Góðir gestir komu á fund stjórnar Melrakkaseturs Íslands á dögunum, þeir Sigurður Jónsson og Rúnar Óli Karlsson hjá Borea Adventures. Þeir afhentu formlega styrk frá fyrirtæki sínu til Melrakkasetursins, í gegnum 1% For The Planet en þeir hafa heitið því að ánefna setrinu 1% af ársveltu fyrirtækis síns. Stjórnarmenn þökkuðu kærlega fyrir stuðninginn og þóttu þeir Borea menn sýna afar mikla velvild með því að velja að styrkja Melrakkasetrið með þessum hætti. Hvaða fyrirtæki sem er, í hópi þeirra fjölmörgu sem eru á lista 1%, getur ákveðið að styrkja Melrakkasetrið en ferlið til að hljóta samþykki 1% er flóknara fyrir þiggjendur en gefendur af augljósum ástæðum. Borea Adventures er, ásamt Melrakkasetrinu fyrsta íslenska fyrirtækið sem fer á lista 1% For The Planet og geta valið úr um þrjú þúsund verkefnum af lista til að styrkja með 1% af ársveltu sinni.

Ályktun vegna innheimtu gjalds í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Ferðamálasamtök Íslands lýsa furðu sinni á það hversu stjórnvöld ætla að flækja málin við innheimtu gjalds í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.  Hugmyndin um tvískipt gjald og tvö ráðuneyti er ekki álitleg. Mismunandi skilgreiningar og undaþágur  í frumvarpinu valda ruglingi og auka kostnað t.d. vegna bókhalds og færslugjalda kortafyrirtækja. Gistinóttagjaldið leggst á fyrirtækin sem hafa fullgild rekstrarleyfi en þeir, sem fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda, stunda gistirekstur í leyfisleysi, munu ekki skila því frekar en gistiskýrslum. Það er umhugsunarvert að tjaldbúar eiga ekki að greiða neitt en þeir gista víðast hvar frítt í boði sveitarfélaganna, sem ekki hafa séð sér fært að rukka fyrir greiðann. Þar gildir ekki viðmiðið „þeir greiða sem nota“.
Það er lofsvert að auka framlög til umbóta á ferðamannastöðum og farþegagjaldið er sanngjörn leið, en þess utan mætti skoða fleiri möguleika í samvinnu  við fulltrúa ferðaþjónustunnar.
Ferðamálasamtökin styðja heilshugar áform um Framkvæmdasjóðinn en skora á þingmenn og ráðherra að endurskoða frumvarpið um umhverfisgjaldið og ná sátt við greinina áður en lagt er af stað.

Stjórn Ferðamálasamtaka Íslands

Stefnumótun vestfirskrar ferðaþjónustu 2010-15 komin út

Forsíða stefnumótunarskjalsins
Forsíða stefnumótunarskjalsins
Undanfarið misseri hafa Ferðamálasamtök Vestfjarða unnið að stefnumótun vestfirskrar ferðaþjónustu. Haldnir voru stefnumótunarfundir um allan fjórðunginn í þeim tilgangi að ná fram sjónarmiðum flestra þeirra sem starfa eða tengjast inn í greinina. Nokkuð á annað hundrað manns lögðu til hugmyndir í stefnumótunina sem fór fram á nokkrum fundum víðsvegar um Vestfirði, stórum og smáum. Þar var leitað eftir því að aðilar í ferðaþjónustu og aðrir sem koma að greininni legðu til sínar hugmyndir. Þessi stefnumótun er því afrakstur greinarinnar sjálfrar, þar sem hún leggur til hvert skuli stefna í ferðamálum fjórðungsins næstu misserin.

Í stefnmótunarskýrslunni koma fram tölulegar upplýsingar um stöðu ferðaþjónustunnar í fjórðungnum í dag auk þess sem lagðar eru fram verkefnatillögur og aðgerðaráætlanir. Þar eru ákveðnum aðilum í stoðkerfinu gert að taka frumkvæði í ýmsum verkþáttum og stuðla að því að verkin komist í framkvæmd en rykfalli ekki ofan í skúffu.

Vestfirsk ferðaþjónusta hefur verið nokkuð áberandi undanfarið og skorað hátt í viðhorfskönnunum. Samkvæmt þeim hefur greininni vaxið mikið fiskur um hrygg en til að mynda fékk vestfirsk ferðaþjónusta nýverið hæstu einkunn varðandi gæði í ferðaþjónustu í landinu. Sú könnun var framkvæmd af Miðlun ehf og RRF (Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar) og stóð yfir dagana 20. október til 16.nóvember 2010. Þá er vert að minnast á umfjöllum Lonely Planet fyrir árið 2011 sem setur Vestfirði sem áfangastað meðal þeirra 10 staða í heiminum sem standa upp úr.

Vestfirðir hlutu einnig mikilvæga viðurkenningu í haust frá Eden, European Destination of Excellence, verkefni sem unnið er frá Evrópuráðinu og eiga eftir að fá mikla kynningu í gegnum það. Auk þess hafa fleiri aðilar fengið hverskyns viðurkenningar á árinu, s.s. nýtt Farfuglaheimili á Broddanesi í Kollafirði sem lenti á topp 5 lista í heiminum í gæðakönnun sem unnin var af Hostels International eftir viðhorfskönnun meðal viðskiptavina sína.

Af þessari upptalningu má sjá að vestfirsk ferðaþjónusta er í mikilli sókn þessi misserin og vonandi verður stefnumótunin verkfæri sem hægt verður að nýta vel í alla kynningu og uppbyggingu næstu árin.
 
Ég vil fyrir hönd vestfirskrar ferðaþjónustu þakka öllum sem komu að vinnunni og sérstakar þakkir fær Ásgerður Þorleifsdóttir ráðgjafi hjá ATVEST fyrir þá gríðarlegu vinnu sem hún hefur lagt verkefninu til.
 
Fram til sigurs,
 
Sigurður Atlason
formaður FMSVHægt er að skoða skýrsluna í þessu formi að ofan og fletta á milli síðna eins og í bók. Einnig er hægt að hlaða niður pdf skjali héðan af síðunni  á slóðinni http://www.vestfirskferdamal.is/skraarsafn/flokkur/22/