Skýrsla formanns á aðalfundi FMSV í Árnesi í Trékyllisvík. 20. apríl 2013.

Sigurður Atlason, fráfarandi formaður samtakanna
Sigurður Atlason, fráfarandi formaður samtakanna

Hér erum við mætt aftur, enn á ný, á aðalfund Ferðamálasamtaka Vestfjarða og að þessu sinni í Árneshreppi. Ég nefndi það á samkomunni hjá okkur í gærkvöldi þar sem við kynntumst ferðaþjónustunni í Árneshreppi að ég væri sérlega ánægður með að samtökin hafi loksins aðalfund á Ströndum fyrir utan Stór-Hólmavíkursvæðisins, ef ég má orða það sem svo. En mér finnst afar mikilvægt að fundir sem þessi séu haldnir um alla útkjálka Vestfjarða.

Nú hef ég verið formaður í fjögur ár og í stjórn samtakanna í tvö ár þar á undan þannig að það er komið að leiðarlokum hjá mér. Ég mun ekki gefa kost á mér sem formaður á þessum aðalfundi heldur mun einhver nýr taka við en það er allavega komið fram eitt framboð sem ég veit af á þessari stundu. Það hefur verið mikil reynsla fyrir mig að starfa fyrir ferðamálasamtökin og ég hef oftast haft mikla ánægju af því að starfa fyrir þau þennan tíma.

Þegar ég hóf störf þá var Sævar Pálsson formaður. Ég lærði mikið af honum. Hann var góður formaður, rökvís og þægilegur að vinna með og ég vil gjarnan senda honum kveðju frá mér með þakklæti fyrir að ala mig upp í þessu umhverfi og sýna mér hvað það væri. En ég hafði auðvitað starfað með ferðamálasamtökunum sem óbreyttur liðsmaður í mörg ár þar á undan og reyndi eins og ég mögulega gat að vera virkur í því.

Þegar ég velti því fyrir mér hverju ég sé mest stoltur af verkum undanfarinna ára fyrir samtökin, sem maður gjarnan gerir þegar kemur að svona tímamótum í lífi hvers manns, þá er það til dæmis sú vinna sem Ferðamálasamtökin lögðu í eftir að ég tók við formennsku, í svo góðri samvinnu við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Markaðsstofu Vestfjarða, og var stefnumótunin. Stefnumótun fjórðungsins í ferðamálum fram til ársins 2015. Nú er komið árið 2013 og að mínu mati þá þarf að endurskoða þessa stefnumótun en það hefur margt breyst á þessum tíma og það er margt í henni sem hefur ekki gefist tími til að fara í. Það hefur orðið breyting á kerfinu í kringum okkur og við þurfum öll að samsvara okkur að því og halda áfram að vinna að góðum verkum. Þetta var góð vinna og það var gríðarlega mikil þátttaka ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum í stefnumótunarvinnunni og mjög almenn sátt um hana meðal allra. Ég minnist þess með góðri tilfinningu hvað þetta ferðalag okkar um Vestfirði þegar við vorum að hafa samræðuna við greinina og íbúana. Mjög eftirminnileg, gefandi og skemmtileg vinna.

Ég vil endilega nota tækifærið og hvetja þá stjórn sem verður eftir þennan fund og nýjum formanni samtakanna að hugsa málið og reyna að ýta því aftur af stað. Ég held að það væri þarft verkefni, án þess að ég ætli að fara að skipta mér að því hvaða verkefni stjórnin ætli að leggja áherslu á. Alls ekki. Það er alltaf best þegar formaður hættir að hann bara hætti og stígi til hliðar. En auðvitað ef einhverjar upplýsingar vantar eða ef fólk telur að ég hafi hugsanlega einhver svör eða tillögur, sem er þó alls ekki víst, þá er símanúmerið mitt á sínum stað.

Annað verkefni sem ég er ekki síður stoltur af er Umhverfisvottun Vestfjarða. Það er verkefni sem stjórn ferðamálasamtkanna ýtti af stað með gríðarlega magnaðri ráðstefnu á Hótel Núpi á aðalfundinum 2010. Það er minnisstæð ráðstefna og ekki síður það góða samstarf sem var í því verkefni líka. Við alla þá fræðimenn og kunnáttufólk sem kom að ráðstefnunni og kynntu fyrir okkur hvað felst í umhverfisvottun. Ekki síður hvernig sveitarfélög á Vestfjörðum og fjórðungssambandið tóku vel í þessar hugmyndir. Hversu tilbúið fólk hér á kjálkanum var að horfa í aðeins aðra átt, fara aðeins út úr kassanum og rúnna hornin ofurlítið af. Það tókst og núna er þetta orðið raunverulegt verkefni. Ég þekki sjálfur ekki mjög gjörla hvar það er statt en í samtali við starfsmann fjórðungssambandsins fyrir fáeinum vikum þá komum við inn á þetta mál og þá kom í ljós að það er allt í vinnslu og sveitarstjórnarfólk er með hugann við það undir styrkri og góðri stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þannig að ég vona það svo innilega að það verði haldið áfram á þeirri braut og það verði hvergi hvikað af henni svo við getum farið að koma af stað sómasamlegu umhverfi sem tekur mið af gegnsæi og umhverfisvernd svo tekin séu dæmi, ásamt fleiri verkefnum sem koma að umhverfisvottun fjórðungsins.

Þessi tvö verkefni sem ég hef nefnt hefur mér þótt mikið til koma þó ég vilji líka koma inn á þá erfiðu vinnu sem stjórn samtakanna stóð þétt saman um í upphafi árs 2011 varðandi kaup á ferðaskrifstofunni Vesturferðir og vangaveltur um framtíð þeirrar öflugu ferðaskrifstofu allri ferðaþjónustu á Vestfjörðum til hagsbóta. Við sáum og heyrðum það í morgun á aðalfundi Vesturferða, sem haldinn er nú orðið í tengslum við aðalfund samtakanna, hvaða árangur það hefur borið. Ekki síst hvað fólk er að standa sig vel við að stýra þessu verkefni. Ég vil flytja kveðju mína og allrar núverandi stjórnar ferðamálasamtakanna til stjórnar Vesturferða og framkvæmdastjóra enn á ný. Good job, segi ég nú bara.

Það var eitt þeirra verkefna sem forveri minn, Sævar Pálsson, ýtti úr vör og var útgáfa á göngukortum um Vestfirði. Sjö kort sem ná yfir allan Vestfjarðakjálkann og gott betur en það því yfir Dalasýslu líka. Það er verkefni sem hefur verið afar mikilvægt fyrir allt svæðið og ég vil endilega minna fólk á það að halda því verkefni áfram en það þarf að endurprenta núna eitt kort en lagerinn er að verða búinn af því og afar mikilvægt að það gerist sem allra fyrst. Á næstu vikum. Ef einhverja aðstoð þarf við þá vinnu þá er ég boðinn og búinn að leggja fram mína krafta mína í það á allan hátt.

Undanfarið ár, eða frá síðasta aðalfundi í Bjarkarlundi, þegar ég hafði gefið það út að ég vildi hætta sem formaður samtakanna en var síðan hvattur til þess að halda áfram hefur verið mér ótrúlega erfitt. Mér virtist að sá hópur fólks sem hvatti mig áfram óttuðust eitthvað um það að sú breyting á stoðkerfinu og markaðsstofunnar, sameining annað hvort við atvinnuþróunarfélag eða fjórðungssamband eða samvinna um það væri ekki eitthvað í alveg nógu góðum gír og vildu þessvegna að ég leiddi það áfram. Það var í alla staði mjög erfitt verkefni fyrir mig. Það hófst haustið 2011 og ég tók það mikið inn á mig því ég var ekki sannfærður um að það væri almennt vilji fyrir því við viðsemjendur að rödd greinarinnar sjálfrar hefði það vægi sem mér fannst og finnst enn vera mikilvægt. Ég hef áður sagt það að ég er ekki viss um að ég hafi verið besti fulltrúi ferðaþjónustunnar í því verkefni en ég get verið mjög óþolinmóður og á það til að taka hluti svolítið persónulega. En núna er staðan í því verkefni þannig að það er komin lausn á þetta mál og ég vil meina að það sé bara nokkuð farsæl lausn.

Það eru komnir fram ákveðnir samningar milli Ferðamálasamtaka Vestfjarða og Fjórðungssambands Vestfirðinga um hvernig málum verði háttað núna í nánustu framtíð. En auðvitað breytast hlutir alltaf einhverntíman og einhvernvegin, það höfum við alltaf vitað og það höfum við séð gerast og við verðum bara að vera tilbúin að mæta því með opnum hug. Mig langar að lesa hérna skjal og koma inn í þessa skýrslu sem er grundvallarskjal um það hvernig Ferðamálasamtök Vestfjarða ásamt stoðkerfinu vilja í sameiningu vinna að framgangi Markaðsstofu Vestfjarða í framtíðinni.

Lagt er til að Markaðsstofa Vestfjarða í núverandi mynd verði lögð niður í samræmi við samþykktir hennar og stofnuð deild innan Fjórðungssambands Vestfirðinga sem taki við núverandi starfsemi Markaðsstofu. Nafn deildarinnar verði Markaðsstofa Vestfjarða.

Fjárhagsgrunnur Markaðsstofu Vestfjarða eru árleg framlög sveitarfélaga á Vestfjörðum samkvæmt samþykkt Fjórðungsþings Vestfirðinga, framlag Ferðamálasamtaka Vestfjarða og samningur við Ferðamálastofu. Markaðsstofa Vestfjarða mun að auki vinna að sérverkefnum sem fjármögnuð er til mislangs tíma. Þannig mun Markaðsstofa Vestfjarða hafa á árinu 2013 umsjón heildstæðu markaðsverkefni „Vestfjarðaklasi“ samkvæmt tillögu í Sóknaráætlun landshluta – Sóknaráætlun Vestfjarða.

Hlutverk Markaðsstofu Vestfjarða er að;
-laða að innlenda og erlenda ferðamenn til Vestfjarða með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi
-vinna að kynningar og markaðsstarfi sveitarfélaga á Vestfjörðum sem ákjósanlegan búsetukost.
-vinna með stoðkerfi atvinnu og byggðaþróunar á Vestfjörðum að kynningar og markaðsmálum ferðaþjónustu, sveitarfélaga og atvinnulífs.

Innra skipulag Markaðsstofu Vestfjarða
-Fjórðungssamband Vestfirðinga ber fjárhagslega og stjórnsýslulega ábyrgð á starfssemi Markaðsstofu Vestfjarða þar með talin daglegan rekstur og starfsmannamál.

Sett verði á laggirnar ráðgjafarráð Markaðsstofu Vestfjarða sem skipað er þrem fulltrúum úr stjórn Ferðamálasamtaka Vestfjarða og tveim fulltrúum skipaðir af stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Ráðgjafarráð velur sér formann og markaðsfulltrúi vinnur með ráðgjafarráði að verkefnum þess.

Hlutverk ráðgjafaráðs Markaðsstofu Vestfjarða er;
-mótun starfssviðs, framtíðarsýnar og langtímastefnu í markaðs og kynningarmálum.
-mótun tillögu að framkvæmdaáætlun innan hvers starfsárs í samræmi við árleg framlög
-Stefnumörkun og tillögur ráðgjafarráðs eru lagðar fyrir stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga til samþykktar.
-Ráðgjafaráð og markaðsfulltrúi skila árlegri skýrslu til stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga um framkvæmd verkefna og ráðstöfun framlaga.
-Fjórðungssamband Vestfirðinga ræður markaðsfulltrúa til starfa að undangenginni umsögn ráðgjafaráðs.

Markaðsstofa Vestfjarða vinnur í nánu samstarfi við sveitarfélög á Vestfjörðum um starfsemi og uppbyggingu upplýsingamiðstöðva ferðamanna á Vestfjörðum. Haft verði að viðmiði að lágmarki starfi ein upplýsingarmiðstöð ferðamanna á eftirtöldum svæðum, Strandir og Reykhólahreppur, sunnanverðir Vestfirðir og norðanverðir Vestfirðir. Áhersla er lögð á samstarf við upplýsingarmiðstöðvar um kynningu á Vestfjörðum sem áfangastaðar ferðamanna, útgáfu kynningarefnis og miðlun þess innan sem utan Vestfjarða.

Svona liggur þessi samþykkt fyrir og hefur bæði verið samþykkt innan stjórnar Ferðamálasamtaka Vestfjarða og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Mér finnst þetta vera gott skjal, mér finnst þetta vera góð niðurstaða á erfiðu ferli og ég er sannfærður um það að ef við öll vinnum saman að þessu þá gengur þetta upp. En auðvitað má gagnrýna allt og um að gera ef það þarf að gera það og láta þá í okkur heyra. En þetta er nýtt verkefni, sem við þurfum að standa saman að og sjá til þess að ferðaþjónusta á Vestfjörðum muni blómgast ennþá meira og annað sem er ekki minna mikilvægt að íbúaþróun á Vestfjörðum nái góðum árangri. Þetta tvennt einfaldlega tónar saman.

Mig langar í lokin að þakka kærlega fyrir mig. Mig langar að þakka samstarfsfólki mínu til margra ára, það eru margir einstaklingar og eins og ég kom að í upphafi þá er þetta búið að vera ánægjulegt og skemmtilegt og á stundum ansi ævintýralegt.

Fram til sigurs!
Sigurður Atlason