Dagskrá ráðstefnunnar Umhverfisvottaðir Vestfirðir

Dagskráin vegna ráðstefnunnar Umhverfisvottaðir Vestfirðir sem Ferðamálasamtök Vestfjarða standa fyrir í tengslum við aðalfund sinn þann 17. apríl á Hótel Núpi  er tilbúin. Eins og sjá má þá er þetta glæsileg dagskrá og mun gefa góða hugmynd að því hvað felst í hugtakinu. Heiti einstakra erinda geta ennþá breyst. Smellið á tengilinn hér fyrir neðan til að nálgast pdf skjal með dagskránni. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Hótel Núp og panta gistingu. Glæsilegt tilboð á mat og gistingu er í boði í tengslum við dagskrá FMSV á Núpi þessa helgi. Sjá tengil inn á tilboðið hér.
Hér er dagskrá ráðstefnunnar.
http://vestfirskferdamal.is/skraarsafn/skra/52/

Vistvænt þenkjandi félagsskapur vill kaupa Nauteyri

Frá Nauteyri. Ljósm.: strandir.is
Frá Nauteyri. Ljósm.: strandir.is
Stofnuð hefur verið sjálfseignarstofnun með nafnið The Nauteyri Project sem hefur það að markmiði að kaupa jörðina Nauteyri við Ísafjarðardjúp af sveitarfélaginu Strandabyggð. Þar er síðan ætlunin að koma á laggirnar friðlandi og náttúruverndarsvæði, auk þess að starfrækt verði þar vistvæn og sjálfbær ferðaþjónusta. Einnig er markmiðið að fræðimenn og rannsakendur sem einbeita sér að náttúruvernd og sjálfbærni eigi þar athvarf og öruggt skjól. Bak við verkefnið eru tveir bretar, Alex Elliott og Brad Houldcroft, sem hafa búið á Íslandi í nokkur ár, en Alex er í meistaranámi í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Nánar má fræðast um The Nauteyri Project á vefnum www.nauteyri.wordpress.com.

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða verður þann 17. apríl

Hótel Núpur. Ljósm.: www.hotelnupur.is
Hótel Núpur. Ljósm.: www.hotelnupur.is
Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða verður haldinn á Hótel Núpi í Dýrafirði laugardaginn 17. apríl n.k. kl. 9:00. Það stefnir í mikla dagskrá í tengslum við aðalfundinn. Á föstudagskvöldinu verður stefnumótunarskýrslan kynnt en verið er að leggja lokahönd á hana um þessar mundir. Vel yfir 100 manns komu að vinnu við hana á fundum víðsvegar um Vestfirði. Eftir aðalfundinn á laugardagsmorgni hefst síðan heilmikil ráðstefna undir yfirskriftinni Umhverfisvottaðir Vestfirðir. Þar halda erindi helstu sérfræðingar landsins um þennan málaflokk og ræða hann út frá öllum sviðum. Umhverfisráðherra hefur boðað komu sína á fundinn. Vonast er til þess að þessi ráðstefna verði til þess að í framhaldinu muni Vestfirðingar ræða í fullri alvöru kosti þess að taka upp umhverfisvottun fyrir svæðið. Bundnar eru vonir til þess að Fjórðungssamband Vestfjarða taki við boltanum og stýri framhaldsvinnunni í góðri samvinnu við önnur sveitarfélög, fyrirtæki, stofnanir og íbúa í fjórðungnum.

Dagskrá aðalfundarins og ráðstefnunnar verður kynnt ítarlega innan tíðar.

Undirbúningur fyrir kort Markaðsstofu Vestfjarða

Nú stendur yfir vinna við nýja útgáfu af Vestfjarðakortinu sem Markaðsstofa Vestfjarða hefur gefið út undanfarin ár. Kortinu er dreift ókeypis til ferðafólks og hefur notið mikilla vinsælda. Eins og allir væntanlega vita er á bakhlið kortsins að finna skrá yfir þá þjónustu sem ferðafólki stendur til boða á svæðinu. Uppfærslu á þessari skrá fer senn að ljúka og eru allir sem vilja láta breyta upplýsingum um sig, sem og þeir sem eru með nýja þjónustu í boði, beðnir að láta vita af sér með tölvupósti í netfangið info@westfjords.is.

Námskeið í markaðssetningu á netinu

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Fræðslumiðstöð Vestfjarða í samvinnu við Útflutningsráð Íslands munu bjóða upp á námskeið í markaðssetningu á netinu byggt á samnefndri bók sem var að koma út.

Kennarar eru Guðmundur Arnar, markaðsstjóri hjá Icelandair og Kristján Már hjá Nordic eMarketing.


Um hvað snýst námskeiðið?

Farið verður yfir helstu samskiptaleiðir netsins á hagnýtan hátt með áherslu á ferðaþjónustu og hvernig samskiptaleiðir netsins geta skapað miklar tekjur. Markmiðið er að þátttakendur öðlist þekkingu sem nýtist þeim strax í starfi.

Kennslan byggir á bókinni „Markaðssetning á netinu" en bókin er innifalin í þátttökugjaldi námskeiðsins.

Námskeiðið stendur frá kl. 11:30 - 16:00 þann 19. febrúar nk í húsnæði Fræðslumiðstöðvarinnar á Ísafirði.

Verð fyrir námskeið og bók er 18.500kr.

Vinsamlegast skráið ykkur og sendið upplýsingar á inga@online.is eða í síma 540 9505