Tungumálanámskeið hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða

Nú er tækifæri fyrir ferðaþjóna að skerpa á tungumálakunnáttunni. Fræðslumiðstöðin hefur auglýst tvö enskunámskeið á Ísafirði sem byrja í næstu viku, annars vegar fyrir byrjendur og hins vegar fyrir lengra komna. Um að gera að skrá sig sem fyrst.


Byrjendanámskeiðið hefst mánudaginn 25. janúar kl. 18:00-20:00. Námskeiðið er 24 kennslustundir og tekur 8 vikur. Það er ætlað fólki sem lítið hefur notað ensku síðan í grunnskóla og vill rifja upp og bæta við. Farið verður í lestur, málnotkun og hlustun. Kennari á námskeiðinu er Anna Guðrún Edvardsdóttir.

Á námskeiði fyrir lengra komna verður lögð áhersla á talað mál með það að markmiði að auka orðaforða og efla sjálfstraust til að geta átt betri samskipti á ensku. Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa einhvern grunn í málinu og fer kennsla fram á ensku. Kennari á námskeiðinu er Deborah Davies og verður kennt á miðvikudögum kl. 18:00-20:00. Námskeiðið er 24 kennslustundir og tekur 8 vikur.

Skráning og nánari upplýsingar hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða í síma 456 5025 eða á www.frmst.is

Svæðisleiðsögunám að hefjast

Mynd_Kari_joMiðvikudaginn 27. janúar kl. 20:00 verður haldinn opinn kynningarfundur á Ísafirði um svæðisleiðsögunám á Vestfjörðum þar sem farið verður yfir fyrirkomulag námsins. Áhugasamir utan norðanverðra Vestfjarða geta tekið þátt í fundinum með hjálp fjarfundabúnaðar á Hólmavík, Reykhólum og Patreksfirði. Námið er haldið af Fræðslumiðstöð Vestfjarða í samvinnu við Leiðsöguskóla Íslands sem ber faglega ábyrgð á náminu, og Ferðamálasamtök Vestfjarða. Markmið námsins er að nemendur öðlist almenna þekkingu á leiðsögn og sérþekkingu á Vestfjörðum. Á fyrstu önn koma þátttakendur saman á tveimur helgarlotum, en á annarri og þriðju önn verða þrjár helgarlotur, en námið fer að öðru leyti fram í dreifnámi. Helgarloturnar eru haldnar á mismunandi stöðum á Vestfjörðum. Allar nánari upplýsingar um svæðisleiðsögunámið er að finna á vef Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

Umsóknarfrestur vegna styrkja til úrbóta á ferðamannastöðum er 8.janúar!!

Ferðamálastofa auglýsir styrki til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2010. Sérstök áhersla verður lögð á verkefni tengd sjálfbærri ferðaþjónustu fyrir alla sem hafa heildrænt skipulag og langtímamarkmið að leiðarljósi.
Íslensk náttúra er eitt helsta aðdráttarafl Íslands í hugum ferðamanna. Stefna íslenskra stjórnvalda er að ferðaþjónustan í landinu starfi sem mest í anda sjálfbærni. Liður í því er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar íslenskrar náttúru.
Meira

Myndir frá stefnumótunarfundum á Vestfjörðum

Nú hafa verið birtar nokkrar myndir frá stefnumótunarfundunum sem haldnir voru á þremur stöðum á Vestfjörðum um miðjan nóvember. Þær er hægt að nálgast með því að smella hér eða til hliðar undir tenglinum Stefnumótun 2010-2015 og síðan þar fyrir neðan undir Myndir frá fundum. Þessa dagana er verið að vinna úr þeim umræðum sem fóru fram á fundunum og verður birt innan tíðar hér á vef Ferðamálasamtakanna. Hópstjórarnir fjórir munu hittast innan tíðar og rifja upp umræðurnar og vinna að næstu skrefum við vinnuna.

Ef einhverjir skyldu luma á myndum frá fundunum þá þætti okkur vænt um að fá að nýta þær hér á heimasíðunni. Þá skulu þær sendar Sigurði Atlasyni á netfangið vestfirdir@gmail.com.

Nýtingaráætlun fyrir strandsvæði Vestfjarða. Fundarröð og samstarf við skipulag

Fyrsti fundur í fundarröð um nýtingaráætlun fyrir strandsvæði við Vestfirði verður haldinn á veitingarstaðnum Malarkaffi á Drangsnesi, fimmtudaginn 19. nóvember n.k. kl 20.00.  Val fundarstaðar er ekki tilviljun, hér er hrint af stað verkefni, hinu fyrsta sinnar tegundar á Íslandi þar sem sjónum er beint að nýtingu strandsvæðisins í heilum landshluta og því er viðeigandi að fyrsti fundur slíku tagi sé haldinn  á fjörukambi í  mynni Steingrímsfjarðar.

 

Fundir og svæðaafmörkun þeirra er annars sem hér segir;

-     Strandasýsla,  19. nóvember kl 20.00. veitingarstaðurinn Malarkaffi, Drangsnesi.

-     Reykhólahreppur, 20. nóvember kl 10.00. Íþróttahúsið Reykhólum, Reykhólum

-     Vestur Barðastrandasýsla , 20.  nóvember kl 17.00. Skor þróunarsetur, Patreksfirði

-     Ísafjarðarsýsla,  25. nóvember kl 20.00.  Þróunarsetur Vestfjarða, Árnagötu, Ísafirði


Hér með er óskað eftir samstarfi við sveitarfélögin um kynningu fundarins, með því að birta efni hans á heimasíðum sveitarfélaganna og kynna efni hans fyrir sveitarstjórnarfulltúum og eftir atvikum hafnarnefnd og atvinnumálanefnd.  Fundirnir verða einnig kynntir í fjölmiðlum.


Hér er tengill inn á upplýsingar um aðdraganda og innihald verkefnisins. Nánari upplýsingar veita Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga (adalsteinn@fjordungssamband.is) og Gunnar Páll Eydal Teiknistofunni Eik (gunnar@teiknistofan.is